Flogið út úr kófinu

Áhrif Covid-19 á íslenskan flugrekstur 2020

 

Samantektin sem hér fer á eftir er afrakstur rannsóknar Flugsafnsins á áhrifum Covid-19 á íslenskan flugrekstur árið 2020. Frá upphafi faraldursins var ljóst að áhrif hans á flug og tengda starfsemi yrðu gríðarleg, hvort sem til skamms eða lengri tíma væri litið og árið 2020 myndi skipa stóran sess í íslenskri flugsögu. Því var það mat safnsins að mikilvægt væri að safna heimildum og kortleggja þær til frekari úrvinnslu við rannsóknir eða sýningagerð í framtíðinni. Ekki er hægt að neita því að ákveðin bjartsýni ríkti þegar ákveðið var að ráðast í verkefnið og sótt var um styrk til Safnasjóðs um mitt sumar. Með opnun landsins og skimun fyrir kórónuveirusmitum á landamærunum þann 15. júní jókst flugumferð til og frá landinu og bjartari tímar virtust framundan. Því fékk verkefnið heitið “Flogið út úr kófinu – Áhrif Covid-19 á íslenskan flugrekstur 2020”.  Áfram verður unnið að rannsókninni og söfnun heimilda á árinu 2021 og því má gera ráð fyrir að samantektin verði uppfærð.

 

Verkefnið hlaut styrk úr Safnasjóði og er Mennta- og menningamálaráðuneytinu og Safnaráði færðar kærar þakkir fyrir stuðninginn.

 

Fyrstu mánuðir nýs árs

 

Í upphafi árs 2020 ríkti almenn bjartsýni í íslensku flugi og ferðaþjónustu. Eftir gjaldþrot flugfélagsins WOW air 28. mars 2019 hafði ferðamönnum fækkað með minnkandi sætaframboði til landsins og staða ferðaþjónustunnar veikst frá fyrra ári. Ýmis teikn voru á lofti um betri tíma og að gott ferðaár væri í vændum. Icelandair hafði aldrei flutt fleiri farþega í millilandaflugi en árið 2019 en yfir 4,4 milljónir farþega flugu með félaginu. Flugfélagið breytti áherslum sínum og lagði aukna áherslu á flug til og frá Íslandi og hélt aukningin áfram í því flugi á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Farþegum í tengiflugi fækkaði hins vegar sem endurspeglaði breyttar áherslur en einnig hafði slæmt veður þar mikil áhrif.

 

Í áætlunum Icelandair var gert ráð fyrir 4,2 milljónum farþega á árinu 2020 og sætaframboð félagsins miðaðist við að 5,1 milljón sæti yrðu í boði. Áætlað var að fljúga til 40 áfangastaða og áhersla var áfram lögð á framboð á flugi til og frá Íslandi með það að markmiði að fjölga ferðamönnum til landsins. Stefnt var að því að flugfélögin Play og endurreist WOW air myndu hefja áætlunarflug í byrjun árs og kínverska flugfélagið Juneyao áformaði að hefja flug til Íslands í mars og gerði ráð fyrir flugi hingað til lands tvisvar í viku.

 

Samkvæmt flugtölum Isavia dróst farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli saman um 29,8% í janúar 2020 en þá fóru 375.723 farþegar um Keflavíkurflugvöll samanborið við 535.210 í janúar 2019.  Munurinn í febrúar var minni milli ára en þá fóru 393.286 farþegar um völlinn en árið áður voru þeir 508.183 eða um 22,6% færri. Hafa verður í huga að WOW air flaug fyrstu þrjá mánuði ársins 2019.

 

Farþegafjöldi Icelandair dróst saman um 7% í janúar. Farþegum í tengiflugi fækkaði um 35% milli ára en farþegum til og frá Íslandi fjölgaði hins vegar. Í febrúar fjölgaði aftur á móti farþegum Icelandair um 8% milli ára.

 

Fjöldi farþega í innanlandsflugi hafði dregist saman undanfarin ár og fyrstu tveir mánuðir ársins voru engin undantekning. Samkvæmt upplýsingum Isavia nam fækkun farþega á öðrum flugvöllum en Keflavíkurflugvelli 19% í janúar og 17% í febrúar. Farþegum Air Iceland Connect fækkaði á sama tíma um 15,9% og 10%.

 

Vágestur ber að dyrum

 

Í byrjun janúar bárust fregnir af veirusmitum í Wuhan-héraði í Kína, af völdum nýs afbrigðis af kórónuveiru. Nýja afbrigðið fékk nafnið COVID-19 og átti eftir að hafa meiri áhrif en nokkurn gat grunað. Veiran breiddist hratt út um heiminn og þann 30. janúar lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna faraldursins.  Fyrsta tilfellið greindist á Íslandi 28. febrúar og höfðu þá verið tilkynnt um tilfelli í 40 löndum.

 

Nokkur flugfélög felldu fljótlega niður flug til Kína og Rússar t.a.m. lokuðu landamærum sínum við Kína í lok janúar. Í greiningu fréttamiðilsins Túristi.is sem birt var 29. janúar, kom fram að vægi kínverskra ferðamanna væri hátt í ársbyrjun hér á landi og mætti rekja til þess að áramót samkvæmt kínversku tímatali eru annað hvort í lok janúar eða byrjun febrúar og margir Kínverjar ferðuðust til útlanda yfir hátíðarnar. Því mætti gera ráð fyrir að færri Kínverjar myndu sækja landið heim en áður á sama tíma.

 

Minnkandi ferðavilji, minna flugframboð og ferðatakmarkanir settu fljótlega strik í reikninginn hjá íslenskri ferðaþjónustu. Þann 6. febrúar gaf Icelandair út afkomuspá fyrir árið 2020, sem gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði á bilinu 3 til 5% af tekjum ársins. Tæpum mánuði síðar, þann 1. mars, hafði félagið fellt afkomuspána úr gildi og sagði ekki tímabært að gefa út nýja afkomuspá vegna óvissu.

 

Flugumferð til Íslands fór snarminnkandi. Þann 12. mars setti Donald Trump Bandaríkjaforseti á 30 daga ferðabann og bannaði allar ferðir frá Evrópu til Bandaríkjanna. Ferðabannið var mikið reiðarslag fyrir Icelandair en flug til og frá Bandaríkjunum voru 27% af áætlun félagsins þá 30 daga sem bannið var í gildi. Í mars dróst farþegafjöldi Icelandair saman um 45% milli ára og farþegafjöldi sem fór um Keflavíkurflugvöll um tæp 63%. Farþegafjöldi á öðrum völlum Isavia dróst saman um rúmt 51%.

Farthegafjoldi-Keflavik-Isavia 

Isavia sagði upp fimmtungi af starfsmönnum fyrirtækisins þann 31. mars eða um 100 manns vegna faraldursins og 37 var boðið að starfa áfram í skertu starfshlutfalli.

 

Svartur apríl

 

Lágpunkti ársins var strax náð í aprílmánuði. Hröð útbreiðsla kórónuveirunnar og ferðatakmarkanir gerðu það að verkum að flugframboð þurrkaðist nánast út og samdráttur í íslensku flugi varð nánast algjör. Farþegafjöldi um flugvelli Isavia dróst saman um 98,3%, þar af var samdrátturinn rúm 99% á Keflavíkurflugvelli. Farþegar Icelandair voru einungis 1711 talsins og samdrátturinn nam 99%. Til samanburðar má nefna að um páskana 2019 fóru um 84 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll en í ár voru þeir einungis 99 talsins.

 Farthegafjoldi-Icelandair-Millilanda

Stjórnendur Icelandair höfðu gefið út að lausafjárstaða félagsins væri sterk og félagið þyldi að vera tekjulaust um tíma. Félagið varð þrátt fyrir það að ráðast í sársaukafullar aðhaldsaðgerðir í lok apríl og þann 28. apríl tilkynnti Icelandair um uppsögn tvö þúsund starfsmanna og náði hún til allra sviða. Uppsögnin var sú stærsta í sögu Íslands. Um mánuði áður hafði félagið farið þá leið að minnka starfshlutfall 92% starfsmanna með tilkomu hlutabótaleiðarinnar og var starfshlutfall flugfreyja m.a. fært niður í 25% í samráði við stéttarfélag þeirra til þess að koma í veg fyrir uppsagnir. Á sama tíma tóku starfsmenn sem enn voru í fullu starfi á sig 20% launaskerðingu, framkvæmdastjórar lækkuðu um 25% í launum og forstjóri og stjórnarmenn um 30%. En með síversnandi ástandi var ekki hjá uppsögnum komist.

 

Skammgóður vermir

 

Eftir afar erfiða mánuði í flugrekstri gafst tilefni til örlítillar bjartsýni þegar skimun fyrir kórónuveirunni hófst á landamærunum og þau voru opnuð á ný þann 15. júní. Flugframboð jókst og farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll fór vaxandi á nýjan leik þótt enn væri hann mjög lítill samanborið við fyrri ár. Fjöldi farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll í júlí var 131.611 og í ágúst 134.108. Samdráttur þessa tvo mánuði var “aðeins” um 84% á milli ára en í apríl, maí og júní var hann á bilinu 96-99%.

 

Um miðjan ágúst ákváðu stjórnvöld að herða reglur á landamærunumm á nýjan leik vegna þróunar heimsfaraldursins; smitum hafði fjölgað í heiminum sem og hér á landi og hafði m.a. komið upp hópsmit sem rekja mátti til nýs afbrigðis af kórónaveirunni. Var því álitið sem svo að herða þyrfti reglur svo koma mætti betur í veg fyrir að smit bærust inn í landið. Öllum farþegum var gefinn kostur á að velja á milli tvöfaldrar skimunar með 5 daga sóttkví á milli eða sleppa skimun gegn því að fara í 14 daga sóttkví. Skiptar skoðanir voru um nýju reglurnar. Samtök ferðaþjónustunnar taldi of langt gengið og benti á að íslensku skilyrðin væru þau ströngustu á landamærum landa innan Evrópusambandsins og EES-svæðisins.

 

Áhrifin komu enda fljótt í ljós. Flugumferð til Íslands fór hratt minnkandi og í septembermánuði var samdráttur í farþegafjölda um Keflavíkurflugvöll kominn yfir 90% á ný og var á bilinu 94,5%-97,5% út árið. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia voru brottfarir erlenda farþega rúmlega 478 þúsund á árinu 2020, samanborið við tæpar 2 milljónir farþega árið 2019. Samdrátturinn nemur tæplega 76% og þarf að leita aftur til ársins 2010 til þess að finna álíka farþegatölur.

 Flugumferd-Keflavik-Isavia

 

Íslendingar ferðast heima og innanlands

 

Yfirvöld og þríeykið svokallaða þreyttust ekki á að minna landann á að gæta að eigin sóttvörnum, halda fjarlægð frá öðrum og forðast margmenni og óþarfa ferðalög til útlanda. Í byrjun sumars hafði innanlandssmitum fækkað og ferðaþyrstir Íslendingar lögðu land undir fót og ferðuðust um landið sitt. Farþegum í innanlandsflugi fjölgaði töluvert á ný í júní og varði fjölgunin út septembermánuð samkvæmt tölum Isavia og Air Iceland Connect. Þegar smitum fór fjölgandi á ný í október og “þriðja bylgjan” skall á í lok september voru landsmenn hvattir til þess að halda sig heima og ferðast ekki á milli landshluta nema nauðsyn krefði. Farþegatölur í innanlandsflugi bera þess merki og nam samdrátturinn um 70% á öllum innanlandsflugvöllum Isavia í október og nóvember. Í desember fjölgaði farþegum lítillega vegna hátíðanna en alls nemur samdrátturinn í flugi hjá Air Iceland Connect á milli áranna 2020 og 2019 55%. Farþegafjöldi á innanlandsflugvöllum Isavia dróst saman um 53% á milli ára en hafa verður í huga að inni í þeim tölum er fjöldi farþega í bæði innanlandsflugi og millilandaflugi um Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.

 Farthegafjoldi-Icelandair-Innanlandsflug

 

Erfiðar aðhaldsaðgerðir

 

Í lok janúar var ráðstefna haldin á vegum Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA), Icelandair Group og Samtökum ferðaþjónustunnar. Þar kom m.a. fram að samkvæmt skýrslu um mikilvægi flugsamgangna og ferðaþjónustu á Íslandi að um 72 þúsund störf skapist beint eða óbeint af flugsamgöngum hér á landi. Þar af skapist um ellefu þúsund bein störf, þ.e. af flugfélögum, flugvirkjun, flugvöllum og flugumferðarstjórn.  

 

Vegna erfiðra rekstraraðstæðna og mikillar óvissu þurftu mörg fyrirtæki að ráðast í sársaukafullar aðhaldsaðgerðir. Íslensk stjórnvöld gripu til ýmissa ráða til þess að létta undir með fyrirtækjum á erfiðum og miklum óvissutímum. Meðal annars með greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og svokallaðri hlutabótaleið sem hugsuð var til þess að viðhalda vinnusambandi milli atvinnurekenda og starfsmanna og auðvelda viðspyrnuna þegar ástandinu linnir.

 

Engum blöðum er um það að fletta að umfang uppsagna flugstétta er með öllu fordæmalaust í íslenskri flugsögu. Í uppsögn Icelandair var m.a. 421 flugmanni sagt upp störfum, 900 flugfreyjum og 130 flugvirkjum. 114 flugmenn voru endurráðnir í sumarbyrjun en eftir að hertar reglur á landamærunum tóku gildi þann 19. ágúst og flugframboð dróst saman á ný var tilkynnt um uppsagnir 88 starfsmanna, þar af 68 flugmanna. Starfshlutfall þeirra flugfreyja og flugþjóna félagsins sem enn voru starfandi var fært niður í 75% í lok ágúst.

 

Að sama skapi varð innanlandsflug einnig fyrir barðinu á samdrættinum og var starfshlutfall flugmanna Air Iceland Connect fært niður um 50% í marsmánuði. Í apríl var greint frá uppsögnum 13 flugmanna félagsins og var 10 flugfreyjum og flugþjónum sagt upp störfum á árinu 2020.

 

Önnur flugfélög réðust einnig í aðhaldsaðgerðir og sagði flugfélagið Bláfugl upp ellefu flugmönnum í lok árs vegna hagræðingar og flugfélagið Air Atlanta sagði upp stórum hluta áhafna sinna.

 

Að öllu þessu sögðu má ekki gleyma þeirri staðreynd að, að baki öllum tölum um uppsagnir og skert starfshlutfall er mannauður sem er flugfélögunum og fyrirtækjum í flugiðnaði og ferðaþjónustu afar dýrmætur; starfsfólk sem hlotið hefur mikla og oft kostnaðarsama þjálfun, og á í mörgum tilfellum að baki langan starfsaldur og hefur sýnt vinnuveitanda sínum mikla tryggð í gegnum tíðina.

 

Heimsfaraldurinn hefur einnig haft áhrif á flugnám og flugvirkjanám, t.d. höfðu  sóttvarnarreglur þau áhrif að verknám gat ekki farið fram með eðlilegum hætti á árinu. Auk þess hefur aðsókn að flugnámi í flugakademíu Keilis minnkað um 80% á milli skólaára en skólinn hefur getið sér gott orð og laðað að sér fjölda erlenda nema undanfarin ár. Þá ákvað Tækniskólinn að taka ekki inn nýjan árgang í flugvirkjanám skólans haustið 2020.

 

Frakt í stað farþega

 

Um 45-50% af flugfrakt í heiminum er flutt með farþegaflugvélum í venjulegu árferði. Í þeim fordæmalausu aðstæðum þar sem nánast allt farþegaflug lá niðri þurftu flugfélög að sýna sveigjanleika og bregðast hratt við til að hafa betur í samkeppni við önnur flugfélög. Mörg þeirra fóru þá leið að breyta farþegavélum í fraktvélar og önnur bættu fraktflugvélum við flotann sinn. Air Atlanta Icelandic byggði rekstur sinn að stærstum hluta á farþegaflugi en það stóð undir um 70% af tekjum félagsins áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Árið 2018 skilaði félagið 5,8 milljóna dollara hagnaði og 2019 nam hagnaðurinn 7,2 milljónum dollara. Starfsfólk félagsins varð því að sýna mikla útsjónarsemi við gerbreyttar aðstæður og mikla óvissu. Í samtali við Baldvin Hermannsson kom m.a. fram að flugfélagið hafi breytt sér í fraktflugfélag á árinu 2020 og hrósaði hann starfsfólki sínu fyrir mikla vinnu og útsjónarsemi. Allt útlit er fyrir að félagið hafi skilað hagnaði á árinu en til þess að svo mætti verða þurfti Air Atlanta að ráðast í harðar aðhaldsaðgerðir líkt og önnur flugfélög.

 

Um 60% af flugfrakt Icelandair var flutt með farþegavélum fyrir Covid-19 en dótturfélag Icelandair Group, Icelandair Cargo, hafði haft yfir tveimur fraktflugvélum að ráða fyrir faraldurinn. Starfsfólk Icelandair Cargo og systurfélags þess Loftleiðir Icelandic, sem hafði annast leiguflug fram til þessa, brugðust hratt við og einsettu sér að bæta við fraktflugi og hafa betur í samkeppni við önnur flugfélög. Liður í því var að breyta sex farþegavélum Icelandair í fraktflugvélar. Strax í mars birti Fréttablaðið frétt um aukna vöruflutninga og aukna eftirspurn eftir fraktflugi. Þá sagði Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo að félagið setti flutning á fiski, lyfjum og lækningavörum í forgang. Í apríl náði Icelandair sem dæmi samningi við flutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker um flutning á lækningavörum frá Kína til Evrópu annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar. Samningurinn aflaði Icelandair mikilvægra tekna og tryggði hluta starfsfólks þess atvinnu.

Icelandair-Cargo

Þegar rýnt er í útgefnar tölur Icelandair má sjá að samdráttur í fraktflugi varð einungis 14% á milli áranna 2020 og 2019 samanborið við 83% samdrátt í farþegafjölda. Þá er áhugavert að samkvæmt tölum Isavia dróst frakt- og flugpóstur aðeins saman um rúm 10% milli ára.

 

Nýtt óskabarn þjóðarinnar?

 

Íslenskir fjölmiðlar gerðu áhrifum Covid-19 á flugrekstur og ferðaþjónustu góð skil á árinu 2020. Icelandair fékk mikla athygli og var oftar en ekki getið í dagblöðum, vefmiðlum og fréttatímum.

 

Verð hlutabréfa Icelandair lækkaði hratt eftir að heimsfaraldurinn fór af stað og rekstrarskilyrði félagsins versnuðu. Ákveðið var að stefna að hlutafjárútboði til að afla því aukins fjármagns og var rætt um að félagið þyrfti á bilinu 15-30 milljarða í aukið hlutafé. Stærstu hluthafar þess gerðu það að kröfu fyrir mögulegri þátttöku í útboðinu, að kjarasamningar næðust við flugmenn, flugfreyjur og flugvirkja til langs tíma. Samningar náðust við flugmenn um miðjan maímánuð og var hann samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta en samið var til fimm ára. Sömu sögu er að segja um flugvirkja félagsins en þeir samþykktu nýjan samning um svipað leyti og gildir nýr samningur til loka árs 2025.

 

Samningaviðræður Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands gengu ekki jafn snurðulaust fyrir sig. Samningar höfðu verið lausir síðan 1. janúar 2019 og verið vísað til ríkissáttasemjara í apríl sama ár. Mikil átök einkenndu samningaviðræðurnar. Flugfreyjufélagið hafnaði tilboðum Icelandair framan af og felldi kjarasamninga í atkvæðagreiðslum. 17. júlí ákvað Icelandair að slíta viðræðum um nýjan kjarasamning og sagði öllum flugfreyjum og flugþjónum upp. Jafnframt sagðist félagið ætla að semja við annan viðsemjanda en Flugfreyjufélagið. En skjótt skipuðust veður í lofti og Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands náðu samkomulagi og undirrituðu nýjan kjarasamning þann 19. júlí. Í lok júlí samþykktu félagsmenn kjarasamninginn, sem gildir til 30. september 2025, og allir kjarasamningar við flugstéttir Icelandair voru þannig í höfn.

 

Markmið með nýjum kjarasamningum við flugstéttirnar var að ná nauðsynlegri hagræðingu og auka samkeppnishæfni Icelandair. Að sama skapi þurfti Icelandair að ná samningum við lánadrottna um að aðlaga afborganir félagsins að sjóðstreymi þess. Í ágúst hafði samningum verið náð við alla lánadrottna auk þess sem samningar náðust við Boeing um afhendingu nýrra Max-véla og um bætur vegna tjóns sem hlaust af kyrrsetningu Max-vélanna sem hefur varað síðan í mars 2019. Icelandair náði einnig samkomulagi við íslensk stjórnvöld um ríkisábyrgð á lánalínum til félagsins upp á 15 milljarða, sem náði til flugrekstrarhluta þess, og var ríkisábyrgðin samþykkt á Alþingi þann 4. september. Því var félaginu ekkert að vanbúnaði til þess að ráðast í hlutafjárútboð og hófst það 16. september og stóð í rúman sólarhring. Stefnt var að 20 milljarða hlutafjáraukningu en heimild var fyrir þremur milljörðum til viðbótar ef kæmi til umframeftirspurnar. Hlutafjárútboðið gekk vonum framar en alls seldust hlutir fyrir 23 milljarða og þurfti ekki að koma til sölutryggingar Landsbanka og Íslandsbanka sem samið hafði verið um fyrir útboðið.

 

Mikil uppstokkun varð í hluthafahópi Icelandair og mikil eftirspurn var frá almennum fjárfestum en eftir útboðið voru hluthafar félagsins orðnir 11 þúsund talsins. Í umfjöllun Markaðarins þann 16. desember segir m.a.: “Fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf sem skráð eru í Kauphöll jókst um 50% í 16.206 í nóvember við þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair. Ástæðuna má rekja til þess að mikill fjöldi þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboði Icelandair voru ekki þátttakendur á íslenska markaðnum fyrir.” Þá var haft eftir Magnúsi Harðarsyni forstjóra Kauphallarinnar í sömu umfjöllun: “Ef fyrirtæki hefur áhugaverða sögu að segja, eins og í tilviki Icelandair og fólk sér hagnaðartækifæri, held ég að áhugi frá einstaklingum sé til staðar.” Jafnframt kom fram að virði Icelandair hafi hækkað um 70% frá hlutafjárútboðinu.

 

Góð þátttaka í hlutafjárútboði Icelandair þótti til marks um hlýhug til flugfélagsins og var rætt um nýtt óskabarn þjóðarinnar. Félagið hafði þurft að takast á við fordæmalausar aðstæður á árinu og standa af sér mikinn ólgusjó. Til marks um þetta var Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, valinn maður ársins 2020 í íslensku viðskiptalífi af álitsgjöfum Markaðarins. Þótti hann hafa sýnt “...þor til að taka erfiðar ákvarðanir í endurskipulagningu Icelandair sem skipti sköpum fyrir efnahagslífið. Þrautseigja hans hafi bjargað félaginu frá brotlendingu.”

 

Að heimsfaraldri loknum

 

Erfitt er að segja til um hvað framtíðin ber í skauti sér þegar heimsfaraldrinum lýkur. Margir eru þeirrar skoðunar að fluggeirinn verði aldrei samur og að ferðahegðun fólks muni breytast, m.a. með áframhaldandi nýtingu fjarfunda. Aðrir eru á þeirri skoðun að ferðavilji fólks sé orðinn það mikill að eftirspurn eftir flugi muni aukast hratt þegar mögulegt verður að ferðast á ný án takmarkana.

 

Flestir sem rætt var við eru bjartsýnir á framtíðina og horfa til þess að þegar nægilegur árangur í bólusetningum hefur náðst muni fluggeirinn hefja sig aftur til flugs. Með heimsfaraldrinum hefur skilningur almennings á nauðsyn góðra flugsamgangna á bæði daglegt líf og atvinnulíf aukist; þær eru undirstaða íslenskrar ferðaþjónustu, skapa mikilvægar tengingar við umheiminn og skipta sköpum í inn- og útflutningi til og frá Íslandi.

 

En hvað sem verður er ljóst að, að baki er fordæmalaust ár í flugrekstri. Allt frá því að flugvél Wright-bræðra hóf sig til flugs árið 1903 hefur flugheimurinn aldrei staðið frammi fyrir öðrum eins áskorunum. Bankahrunið árið 2008 og gosið í Eyjafjallajökli 2010 höfðu tímabundin áhrif á íslenska flugstarfsemi en hver áhrifin af kórónuveirufaraldrinum verða, hvort sem til skamms eða lengri tíma er litið, er enn ekki að fullu ljóst. Því verður rannsókninni framhaldið eftir því sem fleiri upplýsingar liggja fyrir, sem geta gefið enn gleggri mynd af áhrifum faraldursins.