Loftför til sýnis í safninu

  • TF-SIF Aerospatiale SA.365N Dauphin 2
,,Sif” kom til landsins ný frá verksmiðju haustið 1985.  Á vegum Landhelgisgæslunnar var TF-SIF notuð við margvísleg störf m.a. landhelgisgæslu, sjúkraflutninga, leit og björgun, sjómannafræðslu og þjálfun áhafna. Hún var í notkun Landhelgisgæslu Íslands þar til 17. júlí  2007 er henni hlekktist á við björgunaræfingu við Straumsvík. Á þeim tæplega 22 árum var TF-SIF samtals á lofti í 7.056 klst. og 35 mín. Það er áætlað að um 250 mannslífum hafi verið bjargað við notkun “Sifjar”.
  • TF-LBP Taylorcraft Auster 5A
  • TF-LBP Taylorcraft Auster 5A
TF-LBP er fyrsta flugvélin sem keypt var til landsins sérstaklega til sjúkraflutninga. Björn Pálsson og Lárus Óskarsson keyptu flugvélina frá Bretlandi árið 1951. Ári síðar var Slysavarnarfélag Íslands orðið meðeigandi Björns í vélinni. Árið 1954 var TF-LBP komin til Akureyrar og þá skráð á vegum Slysavarnardeilda norðanlands og Rauða kross Akureyrar. Bræðurnir Jóhann og Tryggvi Helgasynir eignuðust TF-LBP árið 1955 og var það upphafið að flugrekstri þeirra bræðra. Núverandi eigendur vélarinnar eignuðust hana árið 1967. Vélin er nú máluð í litum breska flughersins, Royal Air Force, þar sem hún þjónaði áður en hún var keypt hingað. Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki alltaf til staðar í safninu.
  • TF-JFA Beechcraft C-45H  (AT-11*)
Þessi flugvél kom til Akureyrar 2. júlí árið 1964. Hún bar einkennisstafina TF-JME og var önnur tveggja C-45H flugvéla sem Tryggvi Helgason í Norðurflugi keypti af umframbirgðum flughers Bandaríkjanna. Hin vélin, TF-JMD, var tekin í notkun strax eftir komuna til Akureyrar en TF-JME flaug ekki aftur fyrr en árið 1968. Þá höfðu verið gerðar á vélinni ýmsar breytingar sem bættu mjög burðargetu hennar og afköst. Þessar breytingar voru samkvæmt teikningum Hamilton Little Liner og framkvæmdar á verkstæði Norðurflugs sem þá var í skúrbyggingu á Akureyrarflugvelli. Vélin var notuð um árabil við farþega- vöru- og sjúkraflug héðan frá Akureyri, en var tekin úr notkun um 1978. Vélin er nú í einkaeign. Samkvæmt skráningarskölum Loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar er TF-JFA af gerðinni Beechcraft C-45H og smíðaárið 1953. En við nánari athugun kemur í ljós að vélin er ein 900 flugvéla af gerðunum T-7, T-7C, T-11, C-45B og C-45F sem smíðaðar voru á árum síðari heimsstyrjaldarinnar en voru síðan endursmíðaðar hjá Beechcraft samkvæmt samningi við flugherinn frá 1951. TF-JFA var upphaflega smíðuð árið 1942 sem Beechcraft AT-11, raðnúmer 1286. Hún var afhent U.S.Army Air Forces Bombardier Training School á Victorville herflugflugvellinum í Californíu 9.maí árið 1942 og var herskráningarnúmer hennar 41-27441. Að heimstyrjöldinni lokinni var 41-27441 sett í geymslu á Norton herflugvellinum í Californíu. Árið 1948 var tegundarheiti 41-27441 breytt í T-11. Árið 1953 var vélin flutt í járnbrautarvagni til Herrington í Kansas-fylki þar sem hún var endursmíðuð. Nýendursmíðaða vélin var afhent Continental Air Command, þeirri deild flughersins sem hafði umsjón með varaliðum, á Ellington herflugvellinum í Texas þann 8. janúar 1954 . Hún var nú skráð sem C-45H flutningaflugvél með nýju raðnúmeri (AF-602) og nýju skráningarnúmeri flughersins (52-10672). Vitað er að 52-10672 var um tíma með bækistöðvar í New York (árið 1956) en 1958 var vélin aftur komin til vesturstrandarinnar nú í þjónustu 195. orrustuflugsveitarinnar í varaliði Californiu á Van Nuys flugvellinum við Los Angeles. Árið 1963 var ekki lengur talin þörf fyrir 52-10672 og henni var flogið til Davis Monthan flugvallar í Arizona þar sem hún var sett í geymslu. Þessar upplýsingar eru fengnar frá Bob Parmerter, einum helsti sérfræðingi heims í sögu Beechcraft 18 flugvéla.Alls voru framleiddar rúmlega 9.000 Beechcraft 18 flugvélar, í fjölmörgum útgáfum, á árunum 1937 til 1969. TF-JFA er ein af níu flugvélum af gerðinni þessari gerð sem hafa verið í notkun hér á landi. Sú fyrsta var TF-ISL Flugfélags Íslands, sem tekin var í notkun vorið 1942.
  • TF-ESD  Beechcraft D-50B Twin Bonanza
  • TF-ESD  Beechcraft D-50B Twin Bonanza
  • TF-ESD  Beechcraft D-50B Twin Bonanza
Þessi flugvél var fyrst skráð á Íslandi árið 1963 í eigu Flugmálastjórnar Íslands og bar einkennisstafina TF-FSD. Hún var notuð við margvísleg verkefni á vegum FmS m.a. við flugprófanir aðflugstækja. Vélin var í eigu Flugfélags Austurlands á Egilsstöðum frá því um 1973 til ársins 1978. Eftir það var vélin í eigu einstaklinga en lofthæfiskírteini vélarinnar rann úr gildi árið 1979.Vélin, sem er án hreyfla, er geymd úti og er ekki sýningarhæf sem stendur.
Sigurður Þorkelsson flugradíómaður hjá Flugmálastjórn keypti þennan “gýrókopta” til landsins um 1964-65, en flaug honum aldrei. Húnn Snædal keypti vélina árið 1971 og endurbætti. Hann flaug henni samtals 65 klst og 50 mín. í 208 flugum. Síðast flaug “TF-EAA” 25. maí árið 1975 en í því flugi datt hreyfillinn af og hafnaði í sjó. Vitað er um a.m.k. tvo aðra Bensen Gyrocopter á Íslandi, en ekki er vitað um núverandi ástand þeirra.
  • TF-FIE Boeing 727-108C
  • TF-FIE Boeing 727-108C
Þessi flugvél TF-FIE, var fyrsta þotan í eigu Íslendinga, og markaði tímamót í íslenskri flugsögu þegar hún kom til landsins þann 24. júní 1967. Hún var í notkun hérlendis á vegum Flugfélags Íslands og síðar Flugleiða fram í ársbyrjun 1985. Hún var í eigu Flugleiða þar til í janúar 1984 þegar hún var seld til TAG Leasing í Bandaríkjunum, en var leigð af því fyrirtræki fram í febrúar 1985. Vélin var síðan afskráð á Íslandi og seld til pakkaflutningafyrirtækisins UPS, en það fyrirtæki átti um 40 slíkar vélar sem allar fengu "andlitslyftingu" sem meðal annars fólst í því að skipta um hreyfla og mæilitæki í stjórnklefa. Vélin var í notkun UPS þar til henni var lagt í fllugvélakirkjugarði í Rosswell í Nýju Mexikó í júlí 2007. Á líftíma vélarinnar var henni flogið í 48.581 klukkustund og átti 31.647 flugtök og lendingar.  Með hjálp góðra manna tókst að kaupa vélina frá Rosswell og flytja stjórnklefa Gullfaxa í Flugsafn Íslands á Akureyraflugvelli, þar sem hann er til sýnis í dag.
  • TF-AST Cessna 140
  • TF-AST Cessna 140
Alls voru framleiddar um 7.600 vélar af gerðunum Cessna 120, 140 og 140A á árunum 1945 til 1950. Þessi flugvél var keypt til landsins árið 1962 og bar þá einkennisstafina TF-JET. Fyrsti eigandi hennar var Elíeser Jónsson kenndur við Flugstöðina hf. Núverandi eigendur keyptu vélina 1994 og gerðu hana upp frá grunni.    Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki alltaf til staðar í safninu.
  • TF-NPK Douglas C-47A-DL (DC-3)
  • TF-NPK Douglas C-47A-DL (DC-3)
Flugvél þessi kom til Íslands á vegum Bandaríkjahers á haustmánuðum 1943 og hefur verið hér síðan. Flugfélag Íslands keypti flugvélina árið 1946 og var hún skráð til bráðabirgða hérlendis þann 26. júlí með einkennisstafina TF-ISH. Fullnaðarskráning vélarinnar var gerð 12. ágúst 1946 og er TF-ISH/TF-NPK fyrsta flugvélin af þessari gerð í eigu Íslendinga. Þegar Flugfélag Íslands ákvað að skíra flugvélarnar sínar faxanöfnum árið 1948 fékk TF-ISH nafnið "Gljáfaxi".   Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki alltaf til staðar í safninu.
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
  • TF-IUB Douglas DC-6A Liftmaster
Flugfélagið Iscargo keypti þessa flugvél af Fred. Olsen í Noregi árið 1974. Hún var notuð m.a. við margvísleg vöruflutningaverkefni Iscargo víða um lönd í Evrópu, Asíu og Afríku. Ennfremur var vélin notuð við áætlunarflug félagsins milli Reykjavíkur og Rotterdam í Hollandi. TF-IUB flaug síðast árið 1981. Vélin var rifin á Reykjavíkurflugvelli árið 1983, en framhluti hennar hefur varðveist. Douglas DC-6A var vöruflutningaútgáfa DC-6B Cloudmaster, en slíkar flugvélar báru þungan af millilandaflugi íslensku flugfélaganna á sjöunda áratug síðustu aldar. Í farþegaflugi báru Douglas DC-6B flugvélar Loftleiða 85 farþega. Alls voru 17 flugvélar af gerðunum Douglas DC-6, DC-6A og DC-6B í notkun hjá íslensku flugfélögunum Loftleiðum, Flugfélagi Íslands, Flughjálp, Fragtflugi og Iscargo á árunum 1959 til 1981. Vonast er til að hægt verði að gera nef vélarinnar sýningarhæft að innan, en eins og sakir standa vantar öll stjórn- og mælitæki.
  • TF-EHA Erco Ercoupe 415C
TF-EHA, eða "Erna Hjaltalín's Aircraft" (flugvél Ernu Hjaltalín) er ein fjögurra Ercoupe flugvéla sem keyptar voru til landsins árið 1954. Þessar flugvélar voru allar smíðaðar árið 1946. Erna Hjaltalín er fyrsta konan sem lauk atvinnuflugprófi á Íslandi.    Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki  alltaf til staðar í safninu.
  • TF-KEA Evans VP-1 Volksplane
  • TF-KEA Evans VP-1 Volksplane
Smíði TF-KEA hófst árið 1975. Fyrsta flug vélarinnar var farið 18. ágúst árið 1981. Þetta er önnur flugvélin sem Húnn smíðaði, en síðan hefur hann smíðað tvær aðrar flugvélar frá grunni og er önnur þeirra, TF-KOT BUCKER JUNGMASTER HS-44 sem er 45 scale og  einnig er til sýnis í Safninu.
  • GRUNAU 9
Þessi rennifluga var smíðuð á Akureyri veturinn 1937/38 og er fyrsta sviffluga Svifflugfélags Akureyrar. Teikningar og efniviður komu frá Þýskalandi. Hún flaug fyrst vorið 1938 og var aðalkennslutæki Svifflugfélagins fram til ársins 1958. Meðaltímalengd flugs á þessum árum var um 4 mínútur en lengstu flugin voru um 20 mínútur og náðu menn þá C-prófi. Margir af elstu flugstjórum landsins flugu sín fyrstu flug á þessari renniflugu. Síðast var renniflugunni flogið í júní árið 2004.
  • TF-KOT HS-44 Aerokot
Útlit HS-44 Aerokot svipar í meginatriðum til útlits þýsku Bücker 133 Jungmeister flugvélarinnar, sem var mikið notuð til kennslu- og þjálfunar á vegum þýska flughersins, Luftwaffe, á þriðja og fjórða áratug seinustu aldar. TF-KOT var hönnuð og smíðuð á Akureyri af Húni R. Snædal. Smíðin tók um þrjú ár, frá september 1987 og fram í júlí 1990.    
  • TF-SUX Klemm L.25eVIIR
“Klemminn” kom til landsins árið 1938 með þýska svifflugleiðangrinum sem fenginn var hingað fyrir atbeina Agnars Kofoed-Hansen. Vélin varð eftir hér og var á næstu árum notuð til að kanna mögulega lendingarstaði flugvéla um allt land. Ennfremur var TF-SUX notuð til farþega-, póst- og sjúkraflugs sem og til síldarleitar. Árið 1940 var TF-SUX tekin úr notkun þegar hreyfill hennar bilaði. Ekki reyndist unnt að fá nýan hreyfil til landsins vegna ófriðarins í Evrópu. Vélin var í geymslu í mörg ár uns Gísli Sigurðsson flugvélasmiður var fengin til að sjá um endursmíði hennar. Endursmíði vélarinnar lauk árið 1978. TF-SUX flaug síðast árið 1982 undir stjórn Agnar Kofoed-Hansen.
  • TF-SYN Fokker F-27-200 Friendship
  • TF-SYN Fokker F-27-200 Friendship
Þessi flugvél var smíðuð fyrir Landhelgisgæslu Íslands hjá Fokker í Hollandi 1976. Hún var önnur flugvél LHG af þessari tegund. Fyrri vélina, TF-SYR, keypti LHG notaða frá Japan 1972. TF SYR kom í stað Douglas C-45 Skymaster við leitar-og björgunarflug og fiskveiðieftirlit. TF-SYN var tekin úr notkun sumarið 2009 við komu Bombardier 8Q-300 vélarinnar TF-SIF sem fékk sína skráningu frá Dauphin 2-þyrlu LHG,  sem einnig er til sýnis í Flugsafninu. TF- SYN er hönnuð til langflugs. Í henni er meiri fjarskipta-og staðsetningabúnaður en almennt gerist í sambærilegum flugvélum, auk fullkomins björgunarbúnaðar.  Fokker F-27 Friendskip vélar voru fyrst teknar í notkun á Íslandi 1965 og þjónuðu í innanlandsflugi til 1992 þegar Fokker-50 tók við. 
  • TF-CUB Piper J-3C-65 Cub
Talið er að framleiddar hafa verið yfir 40.000 flugvélar af öllum gerðum og afbrigðum Piper Cub frá því að fyrsta Taylor E-2 Cub leit dagsins ljós árið 1931. Piper Cub hafa lengi verið meðal vinsælustu flugvélarnar sem framleiddar hafa verið. Enn er verið að selja nýjar og endurbættar útgáfur. Ýmist eru þær verksmiðjuframleiddar eða þá ætlaðar til heimasmíða.Fyrsti eigandi þessarar flugvélar á Íslandi var Norðurflug á Akureyri. Hún var keypt til landsins árið 1967 og fékk þá einkennisstafina TF-JMF. Hún í mörg ár notuð til kennsluflugs en hefur síðan verið í eigu einstaklinga.Alls voru 8 Piper J-3 Cub á skrá á Íslandi (2008) auk 7 véla af gerðinni Piper PA-18 Super Cub og 3ja véla af gerðinni PA-12 Super Cruiser. Síðan þá hefur bæst í þann hóp.   Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki alltaf til staðar í safninu.
  • TF-JMH Piper PA-23-150 Apache
  • TF-JMH Piper PA-23-150 Apache
  • TF-JMH Piper PA-23-150 Apache
Tryggvi Helgason á Akureyri keypti þessa flugvél hingað til lands frá Bandaríkjunum árið 1959. Þetta var fyrsta tveggja hreyfla flugvélin í þessum stærðarflokki á Íslandi. Piper Apache og Aztec flugvélarnar þóttu afar hentugar til leigu- og sjúkraflugs. Alls hafa 17 flugvélar af þessum tveimur gerðum verið skráðar hér á landi.   Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki alltaf til staðar í safninu.
  • TF-ABJ P.Groves/Pitts S-1S Special
Pitts Special listflugvélarnar hafa löngum verið vinsælar meðal listflugmanna um heim allan. Svo er einnig hér á landi. Fyrsta Pitts-vélin til að fljúga á Íslandi var TF-BTH, sem er af gerðinni S-2AE. Hún var smíðuð af Birni Thoroddsen og flaug fyrst árið 1985. TF-ABJ er ein fimm Pitts listflugvéla á skrá á Íslandi árið 2008. Vitað er um að minnsta kosti fjórar aðrar Pitts í smíðun hérlendis.   Þar sem þessi flugvél er flughæf og í notkun er hún ekki alltaf til staðar í safninu.
  • TF-SBE Alex. Schleicher K-4 Rhönlerche II
Þessi sviffluga var keypt ný til Akureyrar árið 1962. Hún var aðalkennslufluga Svifflugfélags Akureyrar til margra ára eða allt til ársins 1984. TF-SBE flaug síðast árið 1993.
  • TF-SBA Schweizer TG-3A (SGS 2-12)
Schweizer TG-3A var hönnuð sem kennslusviffluga fyrir flugher Bandaríkjanna á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Skrokkurinn er smíðaður úr stálrörum með dúkklæðningu og vængirnir eru smíðaðir úr tré. Alls voru smíðaðar 114 TG-3A. TF-SBA var keypti landsins árið 1946. Henni var síðast flogið 13. júní 1993.
  • TF-AZX (2) Stinson SR-7B Reliant
Þessi flugvél var keypt til landsins í tilefni af 50 ára afmæli Flugfélags Akureyrar árið 1987. Hún er af samskonar gerð og fyrsta flugvél Loftleiða, Stinson SR-8-CM Reliant, TF-AZX, sem stofnendur Loftleiða, Alfreð Elíasson, Edvard Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson, keyptu að loknu flugnámi í Kanada árið 1943.Icelandair gaf Flugsafni Íslands Stinson SR-7B vélina í tilefni 70 ára afmælis Flugfélags Akureyrar þann 3. júní 2007.
  • TF-SGL Waco ZKS-7
  • TF-SGL Waco ZKS-7
"Haförninn", var fyrsta flugvélin sem keypt var eftir að Flugfélags Íslands hf. var stofnað við endurskipulagningu Flugfélags Akureyrar árið 1940. Vélin var tekin í notkun í júlí mánuði það ár og fékk einkennisstafina TF-SGL til heiðurs Siglufirði. Hún eyðilagðist í flugtaki á Hornafirði 3. desember 1943. Það sem er til sýnis í safninu af TF-SGL er aðeins smábútur úr fremstahluta grindarinnar. Þessi bútur lá lengi í reiðileysi við flugskýli Svifflugfélags Akureyrar á Melgerðismelum, en þar var áður flugvöllur Akureyrar. Ekki er vitað hvenær eða hvernig búturinn komst þangað.
  • TF-DRN (TF-ÖRN) Waco YKS-7
  • TF-DRN (TF-ÖRN) Waco YKS-7
  • TF-DRN (TF-ÖRN) Waco YKS-7
Þessi Waco-flugvél var keypt frá Bandaríkjunum haustið 2009. Hún er af nákvæmlega sömu tegund og ÖRNINN, fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar, sem smíðuð var 1937 og kom til landsins 1937, þá á flotum. Vélin var oftast kölluð Örninn, eða Akureyrarflugvélin. Eftir að aðalstöðvar Flugfélags Akureyrar voru fluttar frá Akureyri til Reykjavíkur, og nafninu  breytt í Flugfélag Íslands, fékk félagið aðra vél sem var nánast sömu tegundar og Örninn. 
  • TF-JFP
Kristján Árnason flugstjóri og flugvélaverkfræðingur hannaði og smíðaði þessa séstöku flugvél-TF-JFP ( Jet Flap Propulsion). Á hliðum búksins eru loftinntök þar sem tveir litlir mótorar knýja tvær túrbínur sem þjappa loftinu í þrýstihólf. Þaðan er loftið leitt í stokkum út vængina og í stýrifletina að framan. Svo er loftinu pressað um göt  aftan á vængjunum og yfir jafnvægisstýrin, og hæðarstýri að framan. Notaðir voru 2 tvígengsihreyflar, 52 hestöfl hvor,  sem snérust mest 6500 sn/mín. Einkaleyfi fyrir TF-JFP voru veitt í 6 löndum. Ekki eru til hreyflar á markaði sem henta verkefninu. Við akstursprófun á flugbraut komst vélin upp á 40 hnúta hraða, en náði ekki flugtaki. Vélin var hönnuð og smíðuð á árunum 1975 til 1996. Kristján gaf Flugsafni Íslands vélina og hóf síðan smíði annarar hönnunar sinnar sem er TF-VKA - Global-3, sem einnig er til sýnis í Safninu. 
  • Junkers F.13-Módel
  • Junkers F.13-Módel
Jakob Jónsson smiður gerði módelið af Junkers-F-13. Það tók hann 10 ár að ljúka verkinu. Hann smíðaði sjálfur vélbúnað sem mótaði álið í klæðninguna á módelinu. Jakob smíðaði fjöldan allan af glæsilegum módelum.  Þrjár Junkers-vélar voru notaðar af Flugfélagi Íslands #2 á árunum 1928-1931. Junkers var fyrsta farþegavélin sem eingöngu var smíðuð úr málmi. Hún var einnig sú fyrsta með sjálfberandi væng, (engar vængstífur.) Vélarnar voru framleiddar frá 1919 til 1930. Junkers F-13 á stóran sess í íslenskri flugsögu. 
  • TF-HIS Cessna 180
TF-HIS er ein af sögufrægustu flugvélum landsins sem enn er til. Hún var smíðuð árið 1953 og skráð á Íslandi 24. mars 1954. Vélin var ein af fyrstu sjúkraflugvélum á Íslandi og var lengst af í eigu Flugþjónustu Björns Pálssonar flugmanns en hann var brautryðjandi í sjúkraflugi á Íslandi og víst að margir hafa átt líf sitt og heilsu honum að þakka. Flugvélin var þriðja vélin sem Björn Pálsson flugmaður notaði til sjúkraflugs. Björn hóf sjúkraflug á K.Z.III vélinni TF-KZA en hún þótti ekki henta vel, sér í lagi vegna þess hve lítil hún var og sjúklingar urðu að sitja uppréttir. Árið 1951 keyptu Björn og Lárus Óskarsson flugvélina TF-LBP af gerðinni Auster Mk. 5 og var hún sérstaklega útbúin til sjúkraflugs með sérútbúnum sjúkrabörum og rými fyrir einn fylgdarmann. Slysavarnafélag Íslands keypti hlut Lárusar í vélinni árið 1952 og hófst þá langt og farsælt samstarf þess og Björns. TF-LBP sannaði strax gildi sitt en þótti heldur lítil og hægfleyg og fór Björn fljótt að leita að öflugri vél. Arftakinn var flugvélin sem hér um ræðir, TF-HIS af gerðinni Cessna 180, sem einnig var með sérútbúnum sjúkrabörum og pláss fyrir einn farþega að auki. Félagskonur í Slysavarnafélaginu hófu söfnun fyrir kaupunum, bökuðu kökur og seldu auk þess sem Hið íslenska steinolíufélag styrkti kaupin af miklum myndarskap og ber flugvélin upphafsstafi þess félags í skráningunni. TF-HIS var tekin í notkun hér á landi í marsmánuði 1954. Hún reyndist afar vel, flaug allt að 150 sjúkraflug á ári, og á 20 ára ferli sem sjúkraflugvél lenti hún á fjölmörgum flugvöllum og lendingarstöðum um land allt til að sækja sjúklinga. Á veturna var vélin búin skíðum til lendinga við erfiðar aðstæður. Björn notaði vélina einnig til sjúkraflugs til Grænlands og sennilega er eitt hans fræknasta sjúkraflug þangað, þegar hann sótti tvær konur í barnsnauð til Scoresbysunds þann 9. maí 1957. Árið 1960 keypti Flugþjónustan enn öflugri sjúkraflugvél, Beechcraft Twin Bonanza TF-VOR. Eftir það var TF-HIS aðallega notuð þegar aðstæður voru þannig að nýja vélin gat ekki athafnað sig.  Björn Pálsson lést á sviplegan hátt þann 26. mars 1973, þegar TF-VOR, sem hann var farþegi í, hrapaði vegna gríðarlegrar ísingar yfir Búrfjöllum. Eftir andlát Björns var TF-HIS í eigu sonar hans Sveins, sem rak áfram Flugþjónustuna. Árið 1999 seldi Sveinn vélina flugklúbbnum Þyt og unnu félagar hans mikið starf við endurnýjun vélarinnar og var hún gerð flughæf á nýjan leik. Icelandair keypti TF-HIS af Þyt í lok árs 2014 og gaf safninu formlega þann 4. mars 2015. Hafði vélinni þá ekki verið flogið um hríð og þarfnaðist hún töluverðs viðhalds til þess að gera mætti hana sýningarhæfa en ekki stóð til að hún yrði gerð flughæf á ný. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að gera TF-HIS sýningarhæfa og var verkinu lokið í byrjun mars 2021.  Nú stendur flugvélin nýuppgerð til sýnis í safninu. Flugvirkjanemar og kennarar Tækniskólans hafa unnið að því á meðan á verknámi þeirra hefur staðið í Flugsafninu og málunina gaf Bílaverkstæðið Höldur af miklum rausnarskap. Þá aðstoðuðu starfsmenn ISAVIA við flutning á vélinni til og frá verkstæðinu auk þess sem félagsmenn Arnarins – Hollvinafélags Flugsafnsins hafa aðstoðað eftir þörfum. Er öllum sem komu að verkefninu á einn eða annan hátt færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag.
  • TF-ISM de Havilland D.H.89A Dragon Rapide
  • TF-ISM de Havilland D.H.89A Dragon Rapide
  • TF-ISM de Havilland D.H.89A Dragon Rapide
  • TF-ISM de Havilland D.H.89A Dragon Rapide
Þessi flugvél var smíðuð árið 1944 af Brush Coachworks í Loughborough í Englandi. Hún var keypt hingað til lands haustið 2006. Vélin hafði þá staðið ónotuð í flugskýli á La Ferte Alais flugvellinum í Frakklandi frá því um 1973. Það er galvösk sveit áhugamanna á Akureyri sem vinnur nú að endursmíði hennar. Dragon Rapide flaug í fyrsta sinn árið 1934 og hlaut strax góðar viðtökur hjá flugfélögum víða um heiminn. Ein af fyrstu Rapide-vélunum tók þátt í MacRobertson Air Race flugkeppninni milli London og Melbourne árið 1934 og hafnaði í fimmta sæti í hraðahluta keppninnar og í sjötta sæti í forgjafahlutanum. Alls voru smíðaðar um 730 flugvélar af þessari gerð. Flugfélag Íslands keypti tvær Dragon Rapide flugvélar, TF-ISM og TF-ISO, árið 1944. Þriðja flugvélin af þessari gerð hérlendis var TF-KAA sem Flugskólinn Þytur keypti árið 1953.
  • TF-VKA Globe 3
Kristján Árnason flugstjóri og flugvélaverkfræðingur hannaði og smíðaði þessa sérstöku flugvél TF-VKA á árabilinu 2004 til 2011. Hann ætlaði að fljúga henni kringum jörðina, en vélin náði ekki þeim flugeiginleikum sem hann ætlaði. Global 3 er búin öllum helstu tækjum sem þurfti til flugs. Mótorarnir eru ástralskir JABIRO 85 hestöfl hvor. Flughraði 105 hnútar Ofrishraði (stoll) 95 hnútar.