2004 Arngrímur Jóhannsson

Arngrímur Jóhannsson flugstjóri 


Arngrímur FmS.

Sérsýning í tilefni 50 ára flugafmælis.

Arngrímur B. Jóhannsson er fæddur á Akureyri 7. apríl árið 1940. Hann hóf flugferil sinn 14 ára að aldri hjá Svifflugfélagi Akureyrar á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Fyrsta flugskírteini sitt fékk Arngrímur í svifflugi 1958, ári síðar tók hann einkaflugmannspróf og atvinnuferill hans hófst síðan árið 1966. Arngrímur flaug tvö sumur fyrir Flugfélag Íslands á Douglas DC-3 og eitt ár hjá Norðurflugi á Beechcraft C-45H og Piper PA-23 Apache.

Árið 1969 hélt hann til Biafra og flaug þar Douglas DC-6B vélum Flughjálpar með mat og aðrar lífsnauðsynjar til þurfandi í stríðshrjáðu landi. Að því tímabili loknu starfaði hann sem siglingarfræðingur hjá Loftleiðum á Rolls-Royce 400 (CL-44).

Cargolux tók við eftir það, þar sem Arngrímur var flugmaður og síðan flugstjóri á Canadair CL-44. Heim kom Arngrímur árið 1974 þegar hann gerðist yfirflugstjóri á Boeing -720 þotum flugfélagsins Air Viking. Árið 1976 var Arngrímur í framvarðarsveit við stofnun flugfélagsins Arnarflugs. Hann sat í stjórn þess félags um árabil og var yfirflugstjóri þess. Af flugvélategundum sem hann flaug á þessum árum má nefna Boeing 720B, Boeing 707, Boeing 727, Boeing 737, DHC-6 Twin Otter, Piper Cheyenne II og Piper Cheiftain.

Árið 1984 gerðist hann hluthafi í flugskólanum Flugtak. Það sama ár stofnaði hann ásamt öðrum flugfélagið Air Arctic. Arngrímur og kona hans Þóra Guðmundsdóttir stofnuðu síðan Flugfélagið Atlanta í febrúar  árið 1986. Í fyrstu voru verkefni fá. Arngrímur tók þá að sér að ferjufljúga Boeing 707 þotum til niðurrifs. Árið 1988 lagaðist verkefnastaða hins unga félags og hefur vaxið allar götur síðan. 

Vorið 2005 hætti Arngrímur störfum sem atvinnuflugmaður, en hann síður en svo hættur afskiptum af flugmálum. Hann gegndi um tíma embætti forseta Flugmálafélags Íslands og situr í stjórn Flugsafns Íslands. Listflug og svifflug eru honum hjartfólgin og hann er mikill áhugamaður um íslenska flugsögu.

Arngrímur tók upp á því einn daginn að læra listflug og hefur eitt talsverðum tíma í það áhugamál. Síðan fór hann að smíða listflugvélar í samvinnu við aðra. Fyrst kom Pitts Specialinn TF-ABJ og síðan TF-ABD, og í þeim hefur hann eitt mörgum ánægjustundum.