2008 Erna Hjaltalín

Erna Hjaltalín, fyrsta flugkonan.

Erna Hjaltalín.

Erna Hjaltalín verður að teljast ein merkasta kona íslenskrar flugsögu. Hún var önnur af sínum kynsystrum til að taka einliðaflugpróf, en fyrsta konan til að taka einkaflugmannspróf, atvinnuflugmannspróf og öðlast réttindi loftsiglingafræðings.  Hún er framvörður íslenskra kvenna í flugsögunni og sú sem ruddi farveginn til framtíðar.

Erna Hjaltalín er fædd 12. mars 1932. Dóttir Svönu og Steindórs Hjaltalín, mikils flugáhugamanns.  Sjálf hefur hún verið heltekin af áhuga á flugi og byrjaði mjög ung að fljúga með föður sínum, bæði á Akureyri og í Reykjavík.

Við 16 ára aldur hóf hún formlegt flugnám og á námstímanum flaug hún fjölda flugvéla:  Piper J-3 Cub, Fleet Finch, Boeing-Stearman PT-17, Lockheed Hudson, Miles Magister, North American AT-6 Harvard og Republic RC-3 SeaBee.  Á þeirri síðustu flaug hún í síldarleit með Pétri Péturssyni flugstjóra.

Að loknu einkaflugmannsprófi, á 18 ára afmælisdeginum sínum 1950 eignaðist hún eins hreyfils Piper Cub.  Sumarið 1950 flaug Erna Hudson-vélinni í síldarleit með Páli Magnússyni flugstjóra.  Þetta sama sumar flaug hún meðal annarra véla happadrættisvélinni, TF-CUB, Piper Super Cruiser, um landið.  Einnig flaug hún nokkrar ferðir á Grumman Goose milli Akureyrar og Reykjavíkur á árunum 1951-52.  Erna starfaði jafnframt hjá Flugfélagi Íslands 1950-51 sem flugfreyja.

Samnemendur Ernu í flugskólanum voru mætir menn og vel þekktir.  Allir, utan Ernu, voru þeir fastráðnir hjá Loftleiðum að loknu atvinnuflugmannsprófi, 1952.  Erna Hjaltalín var kvenmaður.  Hún hélt samt áfram að fljúga, meðal annars TF-EHA Erco Ercoupe, sem bar upphafsstafi hennar, Erna Hjaltalín Akureyri.  Hún flaug talsvert með föður sínum þar til hann lést árið 1961.

Erna hóf nám í loftsiglingafræði 1952 hér heima, en fór síðar til Bandaríkjanna til að fullnuma sig í fræðunum.  Hún fékk réttindi loftsiglingafræðings í febrúar 1956 og var þá hjá Loftleiðum að fljúga Douglas DC-4. Réttindi sín endurnýjaði hún á árunum 1963-64 á Douglas DC-6B vélum Loftleiða.

Aðalstarf þessarrar merku konu, Ernu Hjaltalín, var líka frumkvöðlastarf.  Hún réðist fyrst til Loftleiða 1952 og starfaði þar sem flugfreyja með hléum fram til ársins 1960 þegar hún varð yfirflugfreyja félagsins.  Því starfi gegndi hún þar til Loftleiðir og Flugfélag Íslands sameinuðust, utan eins árs þegar hún var stöðvarstjóri Loftleiða í Kaupmannahöfn.  Starfsumhverfi flugfreyja og vinnuaðstæður á fyrstu starfsárum Ernu  voru afar frábrugðnar þeim sem nú þekkjast um borð í farþegaflugvélum, og starfið oft líkamlega erfitt og vinnudagurinn ansi langur.  Erna starfaði hjá Flugleiðum til ársins 1981. Erna var hvorki fastráðin atvinnuflugmaður né loftsiglingafræðingur, en þó átti hún að baki  217 klukkustundir sem flugmaður,  462 klukkustundir sem loftsiglingafræðingur og sem flugfreyja flaug Erna í fleiri tugi þúsunda klukkustundir.