Söfnunarstefna

Söfnunarstefna Flugsafns Íslands

 

Flugsafn Íslands er minjasafn um flugsögu Íslands og íslendinga. Lögheimili þess er á Akureyrarflugvelli, 600 Akureyri. Söfnunarsvæði Safnsins nær til alls landsins.

Markmið Flugsafns Íslands er að safna, varðveita og sýna muni sem tengjast upphafi flugs á Íslandi, sögu þess og þróun til nútímans. Undir það fellur nánast allt sem tengist flugi, frá flugvélum til smæstu hluta sem hafa menningarsögulegt gildi fyrir flugsöguna. Þá skal Flugsafnið, eftir því sem mögulegt er, fá að láni áhugaverða muni til sýningar. Um það skulu vera gerðir sérstakir samningar hverju sinni. Alla muni sem berast Safninu skal skrásetja, merkja og varðveita við bestu mögulegu skilyrði í sýningasölum eða geymslum Safnsins.

Eigum Safnsins má ekki farga, eða ráðstafa á annan hátt, nema öll stjórn Safnsins samþykki það. Slík ráðstöfun skal vera í samræmi við áætlun sem kynnt hefur verið á aðalfundi safnsins. Munir sem afhentir hafa verið Safninu til eignar, er óheimilt að aðhenda fyrri eigendum aftur, eftir að þeir hafa verið skráðir í aðfangbók Safnsins. Þá er óheimilt að taka við gjöfum til Safnsins ef sérstakar kvaðir fylgja þeim.

Í Safninu skulu jafnan vera grunnsýningar sem gefa góða innsýn í flugsöguna og þróun flugs á Íslandi. Þá skal stefnt að því að settar séu upp sérsýningar með reglulegu millibili er taka til einstakra þátta í flugsögunni, atburða o.s.frv. með það að markmiði að vekja áhuga á sögu flugs á Íslandi.

Flugsafn Íslands skal hafa sýningarsali opna á auglýstum sýningatímum. Það skal rækja fræðsluhlutverk sitt við almenning, m.a. með sýningum, móttökum og útgáfustarfi. Safnið skal sinna skólum sérstaklega, allt frá forskóla til æðri skóla, en slíkt samstarf hefur þegar hafist við Tækniskóla Íslands sem útskrifar flugvirkja. Um slíkt skal hafa samvinnu við fræðsluyfirvöld.  Safnið skal leitast við að sinna og vekja áhuga ferðamanna, innlendra sem erlendra á íslenskri flugsögu, m.a. með samstarfi við fyrirtæki á sviði samgangna og ferðaþjónustu.   

Flugsafn Íslands leggur áherslu á að safna munum og hlutum sem tengjast sem flestum sviðum flugsins. Á það jafnt við um atvinnuflug, bæði núverandi flugfélaga og félaga sem eru ekki lengur starfandi, smærri flugfélögum sem þjónuðu fámennari stöðum á landinu, sjúkraflug fyrr og nú, svo eitthvað sé nefnt. Þessum félögum tilheyrir og tilheyrði ýmiskonar búnaður, varningur, auglýsingar, skjöl, myndir, fatnaður og fleira sem vert er að safna. Þetta á einnig við um starfsstéttir sem áður störfuðu við flug, eins og flugleiðsögumenn og vélstjórar, en þær stéttir eru nú horfnar vegna tækniþróunar í flugi.  Tækjum og búnaði sem tilheyrði þessum stéttum ber að safna. Flugvirkjum og þeirra búnaði er vert að gera skil. Einnig flugumferðastjórum og þeirra störfum svo og slökkviliðsmönnum og flugvallastarfsmönnum og þeirra tækjum.

Einkaflug er sagður grunnur að atvinnuflugi. Vert er að safna eldri einkaflugvélum, búnaði þeirra, svo sem kortum og leiðsögutækjum. Einnig svifflugum og því sem tilheyrir svifflugi, fallhlífum, svifvængjum ýmiskonar og svo mætti telja.

Safna skal ljósmyndum, kvikmyndum og myndböndum og öðru myndefni sem þýðingu hafa fyrir sögu flugsins.