2005 Jóhannes R. Snorrason

Jóhannes R. Snorrason flugstjóri

Jóhannes R. Snorrason.

Jóhannes R. Snorrason er fæddur 12. nóvember 1917, á Flateyri, en ólst upp á Akureyri. Faðir hans var Snorri Sigfússon, skólastjóri Barnaskóla Akureyrar. Hann fékk ungur áhuga á flugi og var í hópi ungra manna á Akureyri sem stofnuðu Svifflugfélag Akureyrar árið 1937. Þeir hófust strax handa og smíðuðu renniflugu (svifflugu) af gerðinni Grunau 9, eftir þýskri teikningu. Jóhannes lærði síðan að fljúga þessari renniflugu og hóf þannig flugmannsferil sinn. Þessi rennifluga er enn til í Flugsafni Íslands á Akureyri og enn flughæf.

Árið 1941 fór Jóhannes til Kanada og lauk námi til atvinnuflugmanns hjá Flugskóla Konna Johannesson í Winnipeg.

Í miðri heimsstyrjöldinni síðari, þann 15. október 1943, hóf Jóhannes störf sem flugmaður  hjá Flugfélagi Íslands. Fyrsta verkefni hans þar var að fljúga Beechcraft 18D TF-ISL, fyrstu tveggja hreyfla flugvél Íslendinga, með Erni Johnson, flugstjóra og framkvæmdastjóra Flugfélagsins og síðar forstjóra Flugleiða. Seinna á stríðsárunum flaug Jóhannes mikið de Havilland Dragon Rapide flugvélum Flugfélagsins.

Jóhannes var flugstjóri í fyrsta millilandaflugi Íslendinga með farþega árið 1945. Var það til Skotlands  og farkosturinn PBY-5 Catalina flugbáturinn TF-ISP. Með þessu flugi var lagður hornsteinn að þessum mikilvæga þætti í samgöngumálum Íslendinga.

Af öðrum flugvélategundum sem Jóhannes flaug á sínum flugmannsferli má nefna Noorduyn Norseman, Grumman Goose, Douglas DC-3, DC-4, DC-6B, Vickers Viscount og síðast Boeing 727-100 og -200 þotum.

Á ferli sínum þótti Jóhannes afar farsæll og öruggur flugmaður. Hann varð yfirflugstjóri Flugfélags Íslands árið 1946 og gengdi því hlutverki þar til hann lauk ferli sínum 7. nóvember 1980, þá í þjónustu Flugleiða. Þá var 37 ára atvinnuflug að baki og 30.000 flugtímar, og þar eru taldar með sekúndurnar sem hann flaug Grunau 9 í Eyjafirði.