2006 Agnar Kofoed-Hansen

Agnar Kofoed-Hansen flugmálastjóri

Agnar Kofoed Hansen fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1915. Ungur fékk hann áhuga á flugi og fór til flugnáms í Konunglega Danska Sjóliðsforingjaskólanum og útskrifaðist þaðan 1935. Þær flugvélategundir sem Agnar flaug á námsárunum voru Avro Tutor, Heinkel 8 og DH Moth.

Árið eftir að náminu lauk, var Agnar flugmaður hjá Det Danske Luftfartselskap. Þar flaug hann flugvélum af gerðinni Fokker FXII. Veturinn 1937 starfaði hann hjá Wideröe í Noregi og flaug Waco flugvélum Hann tók próf í næturflugi og flaug þá JU 52 flugvél frá Berlín til Parísar.

Agnar var aðalhvatamaður að stofnun Svifflugfélags Íslands og Flugmálafélagsins 1936. Hann var einnig aðalhvatamaður að stofnun Flugfélags Akureyrar 1937, og fyrsti flugstjóri þess og framkvæmdastjóri frá 1937 til 1939. Félagið keypti flugvél af gerðinni Waco YKS-7, TF-ÖRN og ávalt nefnd Örninn. Hún kom til landsins 1938.

Agnar lagði mikla vinnu í að leita að, og kortleggja hentuga lendingarstaði á Íslandi og notaði til þess flugvél af gerðinni Klemm KL-25E.

Agnar var lögreglustjóri í Reykjavík frá 1940 til 1947, síðan flugvallastjóri ríkisins 1947 til 1951. Hann var ráðinn flugmálastjóri 1951 og gegndi því embætti til dauðadags 23. desember 1982. 

Frumkvöðulsstarf Agnars var mikið, bæði á sviði flugsins og lögreglumála.
Með stofnun Flugfélags Akureyrar árið 1937 kom hann af stað samfelldum flugrekstri á Íslandi, sem enn er í örum vexti og teygir sig nú langt út fyrir landsteinana.

Með aðstoð sinni við stofnun svifflugfélaga, lagði Agnar grunn að flugnámi fjölda íslendinga, sem síðan sköpuðu nýja stétt atvinnuflugmanna í landinu. Og sem flugmálastjóri lagði hann grunninn að flugþjónustu eins og við þekkjum hana í dag, þar sem alþjóðasamskipti eru í heiðri höfð og öryggi í fyrirrúmi.

Agnar ritaði fjölda blaðagreina og flutti fyrirlestra um flugmál og miðlaði þannig af sinni miklu reynslu og þekkingu á flugmálum til samtíðarmanna sinna við uppbyggingu þessa nýja atvinnuvegar sem var í sköpun og hefur haft mikla þýðingu fyrir þjóðina.