Áttundi árgangur flugvirkjanema í Flugsafninu

Undanfarna tvo mánuði hafa flugvirkjanemar Tækniskólans verið við nám í Flugsafninu og lýkur því í lok þessarar viku. Samstarfið hófst árið 2013 og er árgangurinn sem senn lýkur námi sá áttundi. Alls hafa um 180 nemendur stundað hluta af flugvirkjanámi sínu á Flugsafninu. 

Samstarfið hefur verið einkar ánægjulegt og ávinningur beggja aðila augljós. Flugvirkjanemarnir og kennarar þeirra létta undir í verkefnum safnsins ef þörf er á, og í ár aðstoðaði m.a. hluti nemenda safnstjórann við að leiðsegja leikskólahópum um safnið sem vakti mikla lukku hjá gestunum.

Fréttamaður Stöðvar 2 leit við á dögunum og tók Pétur Kristinn Pétursson fagstjóra flugvirkjanámsins og Steinunni Maríu Sveinsdóttur safnstjóra tali. Þá fylgdist hann með hópmyndatökunni sem Hörður Geirsson stjórnarformaður hefur séð um árlega, og eins og sjá má í  innslaginu er þetta glæsilegur hópur. Innslagið má finna hér

Flugsafnið þakkar nemendum og starfsfólki Tækniskólans fyrir samstarf þessa árs og býður níunda árganginn velkominn í upphafi þess næsta.