Konunglegi breski flugherinn og Landhelgisgæslan í heimsókn

Í síðustu viku fengum við ánægjulega heimsókn frá Konunglega breska flughernum og Landhelgisgæslu Íslands. Gestirnir skoðuðu safnið undir leiðsögn Harðar Geirssonar stjórnarformanns, sem sagði þeim sérstaklega frá leitinni að Fairey Battle sprengjuflugvél breska hersins sem fórst á Vaskárdalsjökli árið 1941.

Flak vélarinnar fannst árið 1999 en þá hafði Hörður leitað hennar í hartnær 20 ár. Vélin var mjög illa farin er hún fannst en varðveist hafa ýmsir munir úr flakinu, s.s. vélbyssur og stýrisbúnaður vélarinnar auk persónulegra muna flugliðanna sem fórust með vélinni.

Að heimsókninni lokinni fór hópurinn í skoðunarferð um Akureyri með björgunarsveitinni Súlum áður en hann hélt aftur til Keflavíkur en þessar vikurnar sinnir herinn loftrýmisgæslu við Ísland.

N4 voru á staðnum og verður heimsókninni gerð skil í þættinum Að norðan annað kvöld, þriðjudag, kl. 20.