Þorkell Á. Jóhannsson - Formaður Arnarins
Ég hef alltaf undrast það þegar einhver af yngri kynslóð flugfólks eða -áhugafólks hváir þegar talið berst að einhverjum stóratburðum flugsögunnar okkar, eða helstu nöfnum hennar og spyrja þá sem svo, "Geysisslysið, hvaða slys var það?" eða "Siggi flug? Er það einhver kafteinn hjá Icelandair?" eða "Hvaða Wright-bræður???" Eða þegar viðkomandi geta með engu móti greint tegundir flugvéla eldri en þær sem enn eru á flugi. Þær kynslóðir sem nú knýja dyra í flugheiminum virðast telja sig geta verið án þekkingar á sögu flugsins en eru þeim mun nýjungagjarnari og eyða púðrinu miklu frekar í nýjustu tækni, þróun og framtíðarsýnir fluggeirans. Sem er í sjálfu sér hið besta mál. Fyrir þeim sem þetta ritar er það þó eitthvað svo fjarstæðukennt að þáttakendur flugævintýrsins kunni ekki skil á því hvernig flugsagan okkar mótaðist, hverjir voru frumkvöðlar hennar og helstu vendipunktar. Meira að segja hefur tilraun til að innvinkla nokkra sögukennslu í flugnámsskrá hreinlega runnið út í sandinn vegna áhugaleysis. En svona breytist tíðarandinn. Nostalgía og rómantík flugsögunnar með frumstæðar flugvélar og leiðsögutækni og öll ævintýrin sem því fylgdu, er ekki lengur það sem höfðar til ungra flugmanna framtíðarinnar. Hátæknin, með sinni fullkomnun, sjálfvirkni og hinu verndaða starfsumhverfi fyrir tilstilli þessarar tækni, hefur tekið þann sess.
Kannski er það þó eins með flugsöguna eins og t.d. ættfræðina, að áhuginn á þessu glæðist eftir því sem aldurinn færist yfir, a.m.k. hjá sumum. Fortíðin geymir nefnilega ýmislegt forvitnilegt, sem gaman er að grúska í. Og fyrir þá sem eru mér samferða í þessu ævintýri sem flugið er, án þess þó að hafa tileinkað sér þá töfra sem flugsagan hefur upp á að bjóða, langar mig að kynna nokkrar bækur þar sem kynnast má þeim ótrúlega fjölbreyttu atburðum og mannlífsflórunni sem markað hefur þessi spor. Flestar eru þessar bækur löngu komnar úr sölu nema í fornbókabúðum og stöðum eins og Góða hirðinum og rauða krossinum. OG ekki gleyma, í Flugsafni Íslands. Þessar eru helstar:
"Í lofti" eftir Alexander Jóhannesson er elst þessara bóka, gefin út af Ísafoldarprentsmiðju h.f. 1933. Alexander var aðalhvatamaður að stofnun Flugfélags Íslands nr. 2, árið 1928 og var jafnframt framkvæmdastjóri þess, en félagið lagði upp laupana 1931 eftir ýmsa erfiðleika og óhöpp í rekstri. Bókin er því samtímaheimild um framvindu flugmála á þessum árum. Þrátt fyrir það hve langt er liðið frá útgáfu hennar má enn með smáheppni nálgast hana í fornbókabúðum.
“Flugmál Íslands” eftir Hjálmar R. Bárðarson, útgefandi Bókaútgáfa Heimskringlu, 1939. Hér er efnt til kynningar á flugi, flugvélum og flugmálum í víðu samhengi, eins og þetta horfði við höfundi á þessum tíma. Líkt og með fyrstnefndu bókina er þessi fáanleg í fornbókabúðum.
Bókaflokkurinn "Annálar íslenskra flugmála" eftir Arngrím Sigurðsson samanstendur af 6 bókum í stóru broti, en um er að ræða heimildabækur sem byggjast fyrst og fremst á fjölmiðlaumfjöllun samtímans um það sem gerist í flugmálum hérlendis hverju sinni. Einnig eru þar m.a. birt bréf, töflur og viðtöl auk fjölmargra mynda. Fyrri þrjár bækurnar eru gefnar út af Bókaútgáfu æskunnar en þær síðari af Íslenska Flugsögufélaginu. Þessar bækur spanna með þessum hætti flugsöguna frá upphafi hennar hér, með Flugfélagi Íslands hinu fyrsta sem stofnað var 1919, og til og með 1945, en þá voru t.d. orðin til þau flugfélög sem síðar sameinuðust í Flugleiðir (nú Icelandair), en það voru Flugfélag Íslands númer 3 og Loftleiðir. Fyrsta bókin í þessari ritröð er sú helsta sem rekur af nokkurri nákvæmni tilurð og sögu Flugfélags Íslands nr. 1 og það sem síðar bar við í flugmálum hér fram til þess er stofnað var Flugfélag Íslands nr. 2, árið 1928. "Annálarnir" eru eftir því sem efni standa til tæmandi samantekt hjá Arngrími og ómetanlegt framlag til varðveislu íslenskrar flugsögu.
Annar bókaflokkur í tveimur bindum, "Fimmtíu flogin ár", tekur líka fyrir upphafsár flugsögunnar okkar þó þar sé stiklað í stærri skrefum, því meginstef bókanna er atvinnuflugsaga Íslands frá 1937 til 1987, enda útgáfan í tilefni fimmtíu ára samfelldrar flugrekstrarsögu hér sem hófst með stofnun Flugfélags Akureyrar 1937 (sem varð síðar Flugfélag Íslands nr. 3). Steinar J. Lúðvíksson og Sveinn Sæmundsson vanda vel til verka enda bækurnar veglegar og mikið myndskreyttar. Útgefandi fyrra bindis er Frjálst framtak hf. en hins síðara Fróði hf.
Arngrímur Sigurðsson, höfundur Annálanna sem fyrst eru taldir, er einnig höfundur bókarinnar "Það verður flogið...". Bókaútgáfan Skjaldborg hf. gaf bókina út 1994 í tilefni 75 ára afmælis flugs á Íslandi. Bókin er heimildarrit með fjölda teikninga og mikill fjöldi fólks er kynntur til sögunnar.
Með tilurð Flugfelags Íslands nr. 2 á árunum 1928 til 1931, voru íslendingar þjálfaðir til þeirra sérhæfðu starfa að viðhalda og fljúga þeim flugvélum sem þar komu við sögu (Junkers F13 og W33). Þó fleiri íslendingar hafi áður snert á flugvélastýrum, m.a. vestur-íslendingurinn Frank Fredrickson sem kom og flaug Avro 504K-vél Flugfélags Íslands nr. 1 1920, var það fyrst árið 1930 sem gefið var út á Íslandi flugskírteini nr. 1 en handhafi þess var Sigurður Jónsson, þekktur sem Siggi flug. Hann lærði fluglistina aðallega í Þýskalandi en tók þegar til starfa hjá FÍ nr. 2 við heimkomuna, samhliða þeim þýsku flugmönnum sem fyrir voru á Junkers-vélum félagsins. Bókin "Siggi flug, fyrsti íslenski flugmaðurinn" var gefin út af Skuggsjá á áttunda áratugnum, en auk áðurnefndra bóka er þetta ein helsta heimildin um tilurð og starfsemi Flugfélags Íslands nr. 2. Hersteinn Pálsson skráði en bókin er þó sögð í 1. persónu og hér reynist Siggi flug ágætis sögumaður og gefur okkur m.a. innsýn í flugheim Evrópu millistríðsáranna. Til gamans má geta þess að önnur bók, "Siggi der flieger" var gefin út í Þýskalandi 1979 um námsár Sigurðar þar í landi.
Þá er næst komið að bókinni um Agnar Kofoed Hansen, "Á brattann" sem kom út hjá Almenna Bókafélaginu 1979. Eftir að fyrstu tvær tilraunir til flugrekstrar hér á landi höfðu runnið út í sandinn var á brattann að sækja þegar reynt var að vekja áhuga landsmanna og fjárfesta á frekari tilraunum í þessa átt. Þarna ruddi brautina umfram aðra, Agnar Kofoed Hansen, bráðungur nýútskrifaður flugmaður frá dönskum herskóla, sem reyndist mikill frumkvöðull á þessu sviði. Agnar öðlaðist íslenskt flugskírteini nr. 3, á eftir Sigga flug og Birni nokkrum Eiríkssyni. Bókin um Agnar er n.k. samtalsbók og gerir þessari sögu góð skil en hún er skráð af Jóhannesi Helga. Agnar varð síðar um langt skeið flugmálastjóri Íslands með meiru og hann segir líflega frá ævintýralegu lífshlaupi sínu í þessari bók.
Þegar Flugfélag Akureyrar hafði aðeins starfað í tvö ár voru runnir upp stríðstímar og Agnar Kofoed, stofnandi og framkvæmdastjóri hins nýja flugfélags, var skipaður lögreglustjóri í Reykjavík vegna herþjálfunar sinnar. Þá tók annar flugmaður við framkvæmdastjórastöðunni, Örn Ó. Johnson (flugskírteini nr. 4) og veitti hann félaginu, sem síðar varð Flugfélag Íslands nr. 3, forstöðu fram yfir sameininguna þar sem Flugleiðir urðu til. Og þar sem þessi staða útheimti fullt vinnuframlag varð Örn smám saman að draga sig úr flugmannsstarfinu. Þessi uppgangur varð til þess að enn annar flugmaður tók þá við og sá gegndi síðan stöðu yfirflugstjóra FÍ og síðar Flugleiða allan sinn feril. Hann hét Jóhannes Snorrason (flugskírteini nr. 5) og þar sem saga Arnar Ó. Johnson varð því miður aldrei skráð á bók bætti Jóhannes um betur og sagði sögu sína í þremur bindum! Bækurnar "Skrifað í Skýin I, II og III" eru þess vegna, þrátt fyrir að vera skrifaðar eigin hendi af Jóhannesi og segja því frá hans upplifunum í starfi, stórt tillegg í varðveislu sögunnar, enda er saga Jóhannesar samofin innanlandsflugi á frumbýlingsárum þess og síðar millilandaflugs, m.a. þess fyrsta sem var einmitt flogið af honum, og einnig þegar fyrsta þotan kom til leiks. Jóhannes var lipur penni og bækur hans skemmtilegar aflestrar. Almenna Bókafélagið gaf út fyrstu bókina 1981, en Snæljós sf. þær síðari árin 83 og 87.
Árið 1944 komu til landsins þrír ungir menn eftir flugnám hjá flugskóla Konna Jóhannessonar (sem var íslensk-ættaður) í Kanada, og fluttu með sér flugvél sem þeir festu kaup á þar ytra. Þar sem málaumleitanir leiddu ekki til samstarfs við Flugfélag Íslands stofnuðu þessir þremenningar, þeir Sigurður Ólafsson, Kristinn Olsen og Alfreð Elíasson (skírteinishafar nr. 6, 7 og 8 í þessari röð) flugfélagið Loftleiðir. Þrátt fyrir áföll, barning og sviptingar í rekstrinum fyrstu árin varð uppgangur þessa félags síðar svo ævintýralegur að þess eru fá dæmi síðan. Alfreð Elíasson sat þá á forstjórastóli allt þar til eftir sameininguna við FÍ, þar sem Flugleiðir urðu til. Bókin "Alfreðs saga og Loftleiða" eftir Jakob F. Ásgeirsson, gerir þessu góð skil og veitir um leið góða innsýn í íslenskt samfélag, stjórnmál og viðskiptalíf þessa tíma og víst er að ekki voru öll dýrin í þeim skóginum vinir! Þetta er afar áhugaverð lesning svo ekki sé meira sagt. Iðunn gaf út 1984.
Bókin "Í sviptivindum, æviminningar Sigurðar Helgasonar", eftir Steinar J. Lúðvíksson fjallar um ævi og feril Sigurðar Helgasonar eldri, forstjóra Flugleiða með meiru og er e.k. andsvar við bók Alfeðs hvar mjög er deilt á þátt Sigurðar í öllum sviptingum kring um Flugleiðasameininguna. Fróði gaf út 1991.
Mikil skemmtilesning er fólgin í bókunum um Steina Jóns eða Tony, Þorstein Elton Jónsson, sem hóf stórbrotinn flugmannsferil sinn í breska flughernum, flaug þar bæði Spitfire og Mustang orrustuvélum, var eftir það lengi flugstjóri í innanlands- millilanda- og Grænlandsflugi Flugfélags Íslands. Eftir að hann hætti hjá Flugfélaginu stjórnaði Þorsteinn t.d. síðar hjálparfluginu til Biafra og lauk ferli sínum hjá Cargolux. Steini var afar opinskár í breyskleika sínum og dró ekkert undan í frásögnum sem fyrir vikið eru mjög persónulegar en fullar af húmor. Hann er t.d. eini flugmaðurinn sem ég veit til að hafi viðurkennt opinberlega að hafa flogið fullur, og til að bæta gráu ofan á svart, syngjandi hástöfum án þess að gera sér grein fyrir að hann væri með "stuck mike"! Steini hafði íslenskt flugskírteini nr. 13, en við heimkomu hans eftir stríðslok voru þó útgefin flugskírteini hér á landi orðin mun fleiri. Menn höfðu einfaldlega kosið að hlaupa yfir þetta númer af ástæðum sem Steini setti ekki fyrir sig, en allur hans flugferill var happadrjúgur með þetta skírteinisnúmer upp á vasann. Bækurnar "Dansað í háloftunum" og "Viðburðarrík flugmannsævi" eru nauðsynleg eign fyrir allt flugáhugafólk. Útgefnar af Setberg 1992 og 93.
"Dagur við ský, fólk í íslenskri flugsögu" eftir Jónínu Michaelsdóttur var gefin út af JPV forlagi árið 2000, en þar á höfundur samtöl við tíu einstaklinga sem starfað hafa í fluggeiranum og er bókin bæði merkileg og skemmtileg lesning með mörgum sögulegum myndum. Bókin varð til að frumkvæði forráðamanna Flugleiða en efnistökin alfarið höfundarins.
"Fullhugar á fimbulslóðum, þættir úr Grænlandsfluginu" eftir Svein Sæmundsson fjallar um þann merka þátt í flugsögu okkar, þegar Flugfélag Íslands gerði út flugþjónustu á Grænlandi, m.a. á DC3 skíðaflugvélum. Fróði gaf bókina út 1992.
Bókin "Flogið til Ísafjarðar, þættir úr sögu flugsamgangna við ísafjörð frá 1928" er eftir Jón Pál Halldórsson, útgefin af sögufélagi ísfirðinga 2012.
"Þá flugu Ernir" eftir Jónas Jónasson, fjallar um samnefnt flugfélag sem allir þekkja. Útgefin af Skjaldborg 1997.
Í viðtalsbók Sæmundar Guðvinssonar, "Hættuflug" greina nokkrir flugmenn frá ýmsum raunum sem þeir hafa lent í. Vaka-bókaforlag gaf út 1984.
Með svipuðu sniði er bók Bryndísar Schram, "Hátt uppi", þar sem átta flugfreyjur segja frá sínum upplifunum í starfi. Gefin út af Setbergi 1984.
Þá má nefna bókina "Flugsaga íslands í stríði og friði" eftir Eggert Norðdahl, sem Örn & Örlygur gaf út 1991, og fjallar um það sem gekk á í flugi hér á landi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.
“Kristinn Olsen – svipmyndir frá litríkum flugmannsferli” eftir Sæmund Guðvinsson. Útgefandi Frjálst Framtak, 1998. Eins og áður er komið fram var Kristinn einn af stofnendum Loftleiða og því meðal okkar helstu frumkvöðla. Hann var m.a. einn af fyrstu flugstjórum okkar í millilandaflugi og flaug þá bæði DC4 og DC6 vélum í Ameríkuflugi þar sem flugtíminn var þá meirihlutinn af sólarhringnum í hverri ferð, aðra leiðina! Hann var einnig frumkvöðull í björgunarleiðangrinum þar sem DC3 flugvél var bjargað af Bárðarbungu eftir misheppnaðan björgunarleiðangur hennar vegna Geysis-slyssins, en björgun þessarar vélar varð Loftleiðum til lífs á ögurstundu og því einn af helstu vendipunktum íslenskrar flugsögu.
“Öryggi í öndvegi – saga flugvirkjunar á Íslandi", höfundur Lýður Björnsson. Safn til Iðnsögu Íslendinga, XIII. bindi. Útgefandi. Hið íslenska bókmenntafélag, 1998. Hér er enn annar snertiflötur á flugsögunni okkar sem sjaldan er gefinn gaumur sem vert er. Bókin fjallar ítarlega um þessa starfsgrein frá upphafi flugsögunnar og til nútímans, og er bæði fróðleg og mikið myndskreytt.
Bókin "Flugsaga" eftir Örnólf Thorlacius kom út hjá Bókaútgáfunni Hólar 2016, en þar fer höfundur yfir flugsöguna á heimsvísu þó þáttur Íslands fái einnig þó nokkurt vægi.
Árið 2004 gaf Flugfreyjufélag Íslands út bókina "Velkomin um borð, sögur úr fluginu" í tilefni af fimmtíu ára afmæli sínu. Þetta er ríkulega myndskreytt og skemmtileg bók með sterka skírskotun í flugsöguna okkar.
“Á flugi – áfangar í sögu Flugleiða”, eftir Helgu Guðrúnu Johnson og Sigurveigu Jónsdóttur, útgefandi Flugleiðir hf., 2004.
"Guðni í Sunnu – endurminningar og uppgjör". Höfundur Arnþór Gunnarsson. Útgefandi Vaka-Helgafell, 2006. Guðni Þórðarson, kenndur við eigin ferðaskrifstofu, Sunnu, var líka stofnandi og eigandi Air Viking og sá þannig sjálfur fyrir nauðsynlegri flugþjónustu viðskiptavina sinna. Hver af eldri kynslóðunnum man ekki eftir auglýsingunum með myndum af Boeing 707-vélum félagsins í flugtaki í Keflavík og þar sem sungið var undir "Til suuuðuuurs með Sunnuuu"?
"Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi" eftir Arnþór Gunnarsson, útgefin af Isavia 2018, er gagnmerk bók og að nokkru leyti saga Flugmálastjórnar Íslands, síðar Flugstoða og enn síðar Isavia, þar sem um er að ræða þýðingarmikla rekstrarþætti þessara stofnana. Þetta er stór og þykk bók full af fróðleik og sögu og ríkulega myndskreytt, enda ómissandi bók fyrir flugsögugrúskara.
“Að duga eða drepast – Lífshlaup Bjarna Jónassonar”, Höfundur og útgefandi Bjarni Jónasson, 2019. Ég man alltaf eftir að hann væri kallaður "Bjarni í Eyjum", en hann var einn af þessum litlu flugrekendum með litlar flugvélar sem margir hafa komið og farið í gegn um tíðina, og allt of margir án þess að verða minnst af verðleikum fyrir. Hér er þó saga eins þeirra færð í letur en félag Bjarna, Eyjaflug, annaðist flugþjónustu við Vestmanneyinga í mörg ár, og þ.á.m. sjúkraflug.
Flugslys hafa fylgt flugsögunni okkar allt frá því að Avro 504K vélin kom hér fyrir liðlega hundrað árum. Nokkur þau stærstu hafa fengið ítarlega umfjöllun í bókarformi. Þessi slys eru stórir vendipunktar og áhrifavaldar í flugsögu okkar og því nefni ég þessar bækur hér:
"Útkall, Geysir er horfinn", um það þegar DC4-vélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu 1950. Höfundur, Óttar Sveinsson, Stöng útgáfufélag 2002.
Áður hafði komið út bókin "Geysir á Bárðarbungu" um sama atburð, eftir Andrés Kristjánsson o.fl. frá Skuggsjá 1963.
Óttar Sveinsson segir einnig frá Sri Lanka slysinu 1978 er DC8 þota Flugleiða fórst, í bók sinni "Útkall, Leifur Eiríksson brotlendir" árið 2006.
"Hrímfaxi, örlagadagur í íslenskri flugsögu" heitir afar vönduð bók eftir Bergstein Sigurðsson, gefin út 2013 af Ljósmynd-útgáfu, og segir frá því þegar Vicount-vélin Hrímfaxi fórst í Osló 1963.
Mannskæðasta flugslys sem orðið hefur hér innanlands varð árið 1947 á DC3 vél FÍ, en um það fjallar bókin "Harmleikur í Héðinsfirði" eftir Margréti Þóru Þórsdóttur, sem Bókaútgáfan Tindur gaf út 2009.
Loks er nýútkomin bókin "Martröð í Mykinesi" eftir þá Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen, um slysið í Færeyjum 1970. Útgefandi Ugla, 2020.
Tvær flugtengdar bækur komu út fyrir síðustu jól auk þeirrar síðastnefndu, annars vegar bókin "Jóhannes Einarsson, minningarbrot" eftir Jakob F. Ásgeirsson, útg. Ugla 2020, sem gefur ágæta innsýn í tilurð og rekstur Cargolux, og "Sem minnir mig á það - sögur úr fluginu" eftir Atla Unnsteinsson, útg. Stökkólfur ehf.
Þá verður ekki skilið við þessa upptalningu án þess að geta um myndabækurnar, annars vegar tvær ljósmyndabækur Baldurs Sveinssonar, "Flugvélar á og yfir Íslandi" útgefin af Máli og menningu 2007, og "Flugvélar á Íslandi, gamlar og nýjar" útgefin af Máli og menningu 2019. Þetta eru þykkir doðrantar fullir af frábærum myndum af flugvélum, gömlum og nýjum af öllum stærðum og gerðum og er með ólíkindum sá fjöldi mynda sem höfundurinn hefur náð af vélunum á flugi, þ.e.a.s. þar sem myndir eru teknar úr annari flugvél af myndefninu á flugi. Hins vegar er það málverkabókin "Íslenskar flugvélar, Saga í 90 ár" eftir Snorra Snorrason, útgefin af Íslandsmyndum ehf 2010. Um er að ræða mjög fallega bók með vönduðum máluðum myndum af íslenskum flugvélum frá fyrstu tíð og til nútímans, eftir listamanninn Wilfred Hardy GAvA, en á myndunum má í bakgrunni þekkja ýmist íslenskt eða grænlenskt landslag með jöklum, bæjum, Surtseyjargosi og jafnvel íslenskt varðskip (gamli Ægir)! Með öllum myndunum fylgir greinargóður skýringartexti.
Hér er engan vegin orðinn til tæmandi listi yfir íslenskar bækur með flugtengt efni, en þó helst þær sem þýðingu hafa fyrir varðveislu flugsögunnar okkar. Þá er vert að nefna að ýmis blöð og tímarit hafa gert þessu efni skil gegn um tíðina og má oft finna þau á fornbókasölum. Loks er nú hægt að nálgast ýmsa sjónvarpsþætti á DVD-formi eða t.d. á Youtube og víðar í netheimum. Á Flugsafni Íslands á Akureyri er m.a. hægt að nálgast bæði gömul tímarit og DVD albúm með flugsögulegu efni auk nokkurra af þeim bókum sem ég hef talið hér upp. Þá er þar enn hægt að nálgast flugsögudagatalið sem Örninn gaf út í tilefni 100 ára flugafmælis Íslands þ. 3. september 2019, en í því er rakin saga Flugfélags Íslands hins fyrsta sem þá varð til. Loks er vert að benda á afar merkilega viðtalsþætti Jóhannesar Bjarna Guðmundssonar í Flugvarpinu, en í ráði er að hann haldi þeim viðtölum áfram í samstarfi við Flugsafn Íslands, enda óumdeilanlegt heimildagildi fólgið í frásögnum þeirra sem hann ræðir við.
Varðveisla flugsögunnar er mikilvæg á margan hátt og ekki síður hugsjónastarf. Margir hafa lagt því lið af ástríðu og alúð. Ein áhrifarík en fyrirhafnarlítil aðferð til að leggja þessu máli lið er að gerast félagi í Erninum, hollvinafélagi Flugsafns Íslands gegn hóflegu árgjaldi, en með því er stutt við margvísleg verkefni á vegum safnsins, m.a. Flugvarpið, sem minnst var á hér að framan. Þess skal getið að félagar í Erninum fá frían aðgang að flugsafni Íslands og við hlökkum til að sjá ykkur þar sem flest.
Þorkell Á. Jóhansson - Formaður Arnarins