Pistill safnstjóra

Steinunn María Sveinsdóttir
safnstjóri
Steinunn María Sveinsdóttir
safnstjóri

Árið 2020 var um margt óvenjulegt í sögu Flugsafnsins en að sama skapi skemmtilegt og viðburðaríkt. Í byrjun árs fylltist safnið af flugvirkjanemum Tækniskólans eins og undanfarin ár og voru þeir við nám til febrúarloka. Skömmu síðar fór kórónuveirufaraldurinn að láta á sér kræla og okkur gert að loka safninu fyrir gestum í rúma tvo mánuði í mars. Þegar opna mátti safnið á ný í byrjun maí jókst aðsóknin að safninu jafnt og þétt og voru Íslendingar duglegir að sækja safnið heim yfir sumarmánuðina en alls voru gestir safnsins yfir 7000 talsins á árinu. 

Flugdagurinn var haldinn þann 27. júní og tókst hann frábærlega. Sérsýning safnsins um Cargolux var opnuð, listilega smíðuðum flugmódelum flogið og flugsýningin vakti mikla ánægju gesta eins og alltaf en alls komu 850 manns á Flugdaginn. Er öllum þátttakendum þakkað fyrir þeirra framlag. Flugdagurinn 2021 verður haldinn laugardaginn 19. júní og hvetjum við alla til þess að taka daginn frá.

Unnið var að krafti að faglegu starfi safnsins á árinu; tiltekt í geymslum, skipulagningu safnkosts og skráningu muna og verður því verkefni haldið áfram. Safninu bárust margir góðir munir sem og ljósmyndir til eignar á árinu. Safnið hlaut góða styrki frá Ríkissjóði, Akureyrarbæ, Safnasjóði og einkaaðilum sem nýttust til rekstrar og verkefna, s.s. skráningar og rannsóknar á áhrifum Covid-19 á íslenskan flugrekstur, og ber að þakka þann mikla velvilja og traust sem safninu er sýnt. 

Ráðist var í endurbætur og tiltekt í sýningarrými safnsins, m.a. voru anddyri og snyrtingar safnsins málaðar, sýningarskápar lagfærðir, flugvélum og flygildum endurraðað, lögð ný lögn að hitablásaranum og stóra hurðin á suðurgaflinum löguð svo eitthvað sé nefnt. Að öllum þessum verkefnum komu hollvinir safnsins og verður þeirra framlag seint fullþakkað. Hvort sem um er að ræða gestamóttöku, verklega vinnu eða sagnfræðilegt grúsk eru þeir ávallt tilbúnir til þess að aðstoða og er það ómetanlegt.

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð horfum við bjartsýn fram á veginn. Áfram verður unnið að því að efla faglegt starf safnsins, sérsýningar settar upp og grunnsýningin endurskipulögð en „viðbyggingin“, hluti Boeing 757-208 flugvélar Icelandair TF-FIJ, mun verða kærkomin viðbót við safnið og með henni gefst einstakt tækifæri til þess að varðveita mikilvægan þátt í flugsögu okkar Íslendinga. 

Að lokum vil ég þakka ykkur kæru Hollvinir fyrir dyggan stuðning og ánægjulegt samstarf og vona að svo megi verða áfram.

Steinunn María Sveinsdóttir
safnstjóri