Flugsöguhornið - Fyrsta breiðþotan

Lockheed L-1011-1 TriStar breiðþota Flugfélagsins Atlanta lendir í fyrsta sinn á Keflavíkurflugvelli…
Lockheed L-1011-1 TriStar breiðþota Flugfélagsins Atlanta lendir í fyrsta sinn á Keflavíkurflugvelli 26. maí 1991.

Lockheed L-1011 TriStar Flugfélagsins Atlanta,TF-ABG, fyrsta breiðþotan sem skrásett er á Íslandi, lenti á Keflavíkurflugvelli s.l. sunnudagskvöld. Vakti koma breiðþotunnar mikla athygli og fylgdist mikill mannfjöldi með þegar vélin flaug nokkra hringi yfir Reykjavík áður en hún lenti á Keflavíkurflugvelli. Viðkomu vélarinnar til Keflavíkur færði Þóra Guðmundsdóttir eiginkona Arngríms Jóhannssonar aðaleiganda Atlanta, Ásgeiri Christiansen flugstjóra stóran blómvönd og bauð áhöfn hennar velkomna til íslands með hinn glæsilega farkost. Breiðþotan tekur 345 farþega og er áhöfnin tíu manns, þrír flugmenn og sjö flugfreyjur og flugþjónar. Flugfélagið Atlanta hefur tekið vélina á leigu af bandarískum aðilum og verður hún notuð við leiguflugs-verkefni fyrir flugfélagið Sudan Airways. Verkefni þetta mun væntanlega standa yfir í um sex mánuði og mun vélin flytja pílagríma af múhameðstrú til og frá Jeddah í Saudi-Arabíu auk þess að verða notuð á áætlunarleiðum súdanska flugfélagsins innan Afríku svo og til Evrópu. Alls munu um þrjátíu manns starfa við þetta verkefni ávegum Atlanta þar af um helmingur Íslendingar. Verkefnisstjóri við þetta leiguflug Atlanta er Ásgeir Christiansen flugstjóri, en hann hefur lengi verið starfandi flugstjóri á TriStar-þotum bandarísks flugfélags. TF-ABG hélt frá Keflavík á mánudag til London en þaðan fór hún strax í áætlunarflug til Khartúm í Súdan.

Myndir og texti – Pétur P. Johnson

TF-ABG

Ásgeir Christiansen flugstjóri og verkefnisstjóri Flugfélagsins Atlanta í fyrstu breiðþotuverkefni félagsins situr hér í flugmannssæti með dóttur sína, Láru, í fanginu. Þess má geta að Lára er nú framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna.