26 TF-HIS Cessna 180

TF-HIS Cessna 180

  • 26 TF-HIS Cessna 180

TF-HIS er sennilega ein sögulegasta flugvél sem til er á Íslandi í dag.  Hún var smíðuð árið 1953 og var skráð á Íslandi 24. mars 1954. Vélin var skráð á Flugþjónustu Björns Pálssonar sem sérhæfði sig í sjúkraflugi á þessum tíma. Vélin var fyrsta flugvél á Íslandi sem var sérhæfð til sjúkraflutninga með sérstökum sjúkrabörum. TF-HIS var þriðja sjúkraflugvél Björns, en áður hafði hann átt KZ-III TF-KZA og Auster Mk.V TF-LBP. Báðar þessar vélar eru til á Akureyri. Hið íslenska steinolíufélag styrkti kaup Björns á TF-HIS og ber vélin upphafsstafi þess félags í skráningunni.  Vélin flaug allt að 150 sjúkraflug á ári, og á 20 ára ferli sem sjúkraflugvél lenti hún á hundruðum flugvalla og margskonar lendingastaða til að sækja sjúklinga. Á veturna var vélin búin skíðum til lendinga við erfiðar aðstæður. Björn notaðu vélina einnig til sjúkraflugs til Grænlands og sennileg er eitt hans fræknasta sjúkraflug þangað. Þann 9. apríl 1957 kom beiðni um sjúkraflug frá Scoresbysundi um að sækja þangað konu í barnsnauð og veikt barn og móður þess. Engin flugvöllur var í Scoresbysundi og allt á kafi í snjó. Skíði voru sett á TF-HIS, vélin fyllt af bensínbrúsum því ekkert bensín var að hafa þar. Björn lenti á Ísafirði og fyllti alla brúsa og hélt af stað yfir hafið til norðurs. Honum til aðstoðar var björgunarvél frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli sem hjálpaði honum með siglingafræði og samskipti við Flugstjórn í Reykjavík. Eftir lendinu í Scoresbysundi kastaði aðstoðarvélin niður nokkrum bensínbrúsum til viðbótar svo Björn hefði nægt eldsneyti til baka. Hann flaug síðan í einum áfanga til Reykjavíkur. Þetta flug hlaut mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Fyrir þetta björgunarflug hlaut Björn sérstaka viðurkenningu frá dönskum stjórnvöldum. 

Árið 1960 keypti Flugþjónustan öflugri sjúkraflugvél, Beech Twin Bonanza TF-VOR. Eftir það var TF-HIS aðallega notuð þegar aðstæður voru þannig að nýja vélin gat ekki athafnað sig. 

Björn Pálsson lést á sviplegan hátt þegar TF-VOR fórst í gríðarlegri ísingu 26. mars 1973, en Björn var farþegi í vélinni. Eftir það var TF-HIS í eigu sonar hans, Sveins Björnssonar sem síðan seldi vélina til Flugklúbbsins Þyts. Icelandair keypti síðan vélina og gaf til Flugsafns Íslands. Unnið er að því að koma vélinni í sýningarhæft ástand fyrir Flugsafnið.